Körfubolti

Besti leikmaður NBA-deildarinnar allur útklóraður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic hjá Denver Nuggets fær oft harðar móttökur inn á vellinum og er ekki alltaf sáttur.
Nikola Jokic hjá Denver Nuggets fær oft harðar móttökur inn á vellinum og er ekki alltaf sáttur. Getty/Jason Miller

Nikola Jokic hefur auðvitað vakið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu inn á körfuboltavellinum í NBA-deildinni en hann sker sig líka út fyrir hugarfarið.

Jokic er ekki mikið að pæla í tölfræði eða einstaklingsafrekum eins og margir kollegar hans og oft má sjá fyndin viðbrögð frá honum við spurningar út í slíkt.

Hann er líka harður af sér og lætur ekki bugast þótt hart sé tekið á honum.

Gott dæmi um þetta þykjast menn sjá á höndum kappans því hann lítur hreinlega út eins og hann hafi verið að slást við björn.

Jokic er nefnilega allur út í klóri á höndunum eins og sjá má hér fyrir ofan.

Nikola Jokic hefur verið kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil og þykir líklegastur til að hreppa þau verðlaun í þriðja sinn í vetur.

Jokic er með þrennu að meðaltali í leik, hefur skorað 24,8 stig, tekið 11,7 fráköst og gefið 10,0 stoðsendingar sem miðherji og það með því að spila bara 33,7 mínútur í leik. Hann er með 63 prósent skotnýtingu og 82 prósent vítanýtingu.

Það er því ekkert skrýtið að blaðamenn vilji tala við hann um tölfræðiafrek hans þótt hann sjálfur gefi ekki mikið fyrir þau.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×