Sá sem kærði málið var þýskur ferðamaður sem ferðaðist til Ischgl í Tírol héraði þann 7. mars árið 2020. Heimsótti hann nokkra skíðastaði og sneri aftur sex dögum síðar. Skömmu eftir heimkomuna fann hann fyrir einkennum covid sem hann síðan greindist með. Fréttastofan ABC greinir frá þessu.
Krafðist Þjóðverjinn skaðabóta frá austurríska ríkinu á grundvelli aðgerðarleysis þess, og stjórnvalda í Tírol héraði. Það er að þau hefðu ekki brugðist við faraldrinum og því hafi fólk smitast.
Tuttugu Íslendingar aðilar máls
Íslendingar þekkja nafnið Ischgl vel enda komu fjölmargir Íslendingar smitaðir þaðan snemma í marsmánuði árið 2020. Eftir rannsókn á málinu upplýstu íslensk heilbrigðisyfirvöld þau austurrísku um smitin. Austurríkismenn hafa hins vegar verið sakaðir um að hlusta ekki á viðvaranir og halda skíðasvæðinu opnu of lengi.
Málsókn Þjóðverjans er prófmál á vegum austurrísku neytendasamtakanna. Samtökin söfnuðu umbjóðendum í hópmálsókn og sökuðu stjórnvöld um að hafa hylmt yfir upplýsingar um útbreiðsluna í Iscghl.
Sex þúsund manns frá 45 löndum, þar af 20 Íslendingar, tóku þátt í hópmálsókninni. Að minnsta kosti 27 af þeim hafa látið lífið vegna covid.
Tilkynningin varfærnisleg
Í dóminum segir að héraðsyfirvöld í Tírol hefðu ekki gefið réttar upplýsingar í tilkynningu þann 5. mars árið 2020, um smitaða Íslendinga. En haldið var fram að þeir hefðu smitast í flugvélinni á leiðinni heim frá Munchen en ekki í Tírol. Gögn málsins sína að yfirvöld hefðu þegar fengið upplýsingar um að að minnsta kosti einn þeirra hefði sýnt einkenni covid.
Hins vegar hafi tilkynningin verið varfærnislega orðuð og þar sagt að frekari upplýsingar ættu eftir að koma í ljós. Þessi tilkynning væri því ekki næg til þess að skapa bótaskyldu á grundvelli þess að fólk hefði smitast á skíðahóteli.
Ekki búið
Peter Kolba, forstjóri austurrísku neytendasamtakanna, sagði dóminn „mikil vonbrigði fyrir fólk frá 45 löndum sem hefði sumt þjáðst mikið vegna mistaka héraðsstjórnarinnar í Tírol.“ Í yfirlýsingu hans segir að samtökin muni núna fara vel yfir dóminn og ræða næstu skref til að sækja bætur fyrir sína umbjóðendur.