Uppistöðulón við Braskereidfoss-vatnsaflsvirkjunina er yfirfullt eftir úrkomu síðustu daga. Lokur sem áttu að opnast sjálfkrafa þegar vatnsborðið hækkaði virkuðu ekki og því hefur ekki verið hægt að stýra flæði vatns. Virkjunin er án rafmagns vegna flóðanna og því hefur ekki verið hægt að ná sambandi við lokurnar.
Lögregla segir að mögulega þurfi að sprengja gat á stífluna til þess að koma í veg fyrir að byggð fyrir neðan hana verði fyrir skemmdum ef vatn flæðir skyndilega af stað.
„Þegar það er svona mikið vatn gætum við ímyndað okkur, í versta falli, nokkurs konar flóðbylgju geisast niður ána,“ sagði Merete Hjertø, talskona norsku lögreglunnar við norska ríkisútvarpið NRK.
Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um að sprengja stífluna enn sem komið er, að sögn AP-fréttastofunnar.

Enn bætir í vatnselginn
Áfram er spáð verulegri úrkomu í Noregi og Svíþjóð en hlutar beggja landa eru á floti eftir rigningar sem fylgdu storminum Hans. Ár hafa flætt yfir bakka sína, vegir hafa skemmst og fólk slasast af völdum fallandi trjágreina. Rauðar veðurviðvaranir eru í gildi í báðum löndum í dag vegna flóða- og skriðuhættu.
Norsk kona á áttræðisaldri lést á sjúkrahúsi í morgun eftir að hún féll út í á í gær. Henni tókst að komast upp á bakkann af eigin rammleik en vegna flóðanna tók það fleiri klukkustundir að koma henni á sjúkrahús, að sögn lögreglu.
Fleiri en sex hundruð manns var gert að yfirgefa heimili sín norðan af Osló í nótt. Allar helstu umferðaræðar á milli Osló og Þrándheims voru lokaðir í dag.
Norska veðurstofan spáir allt að þrjátíu millímetra úrkomu í sunnanverðu landinu í dag. Þó að það sé ekki í sjálfu sér öfgakennt magn gætu afleiðingar úrkomunnar orðið það vegna ástandsins á svæðinu.