„Ég er alveg sammála því. Við lokuðum leiknum í fyrri hálfleik með frábærri frammistöðu og þetta var verðskuldaður sigur hjá FH-liðinu í dag,“ sagði Guðni að leik loknum.
Með sigrinum tryggði FH sér sæti í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt upp eftir tæpar tvær vikur, en fyrir leik hafði Guðni einmitt orð á því að það væri gulrótin sem liðið væri að eltast við í kvöld.
„Algjörlega, og liðið var mjög meðvitað um það hvað væri í húfi. Það voru líka fleiri gulrætur í boði því FH-liðið hefur ekki safnað svona mörgum stigum áður, þannig að það er líka jákvætt. Þannig að það var fullt af gulrótum og liðið vildi svo sannarlega sækja þessi þrjú stig.“
„Ég er heilt yfir mjög sáttur með uppleggið og eins sáttur með frammistöðu leikmanna.“
FH-ingar hafa nú safnað 25 stigum þegar enn eru tvær umferðir í að deildinni verði skipt upp, en Guðni segist ekki hafa verið að horfa í einhvern ákveðinn stigafjölda áður en mótið hófst.
„Við vorum ekki að horfa beint í stigin, heldur vorum við að horfa í að enda í topp sex. Að það skuli vera komið í hús þegar tvær umferðir eru eftir er bara frábært.“
FH-ingar taka á móti Stjörnunni næstkomandi sunnudag í 17. umferð Bestu-deildarinnar og býst Guðni við hörkuleik þar.
„Það var hörkuleikur á móti Stjörnunni síðast og ég á ekki von á neinu öðru en að sama verði uppi á teningnum um helgina. FH-liðið mætir vel gírað í þann leik.“