Ísland var 1-0 yfir í hálfleik en fékk á sig jöfnunarmark strax í upphafi seinni hálfleiksins.
„Við áttum mjög góðan fyrri hálfleik, náðum að fara hátt á þá, pressa þá og nota svolítið vindinn. Við fengum að minnsta kosti þrjú góð færi til að koma okkur í mjög góða stöðu í fyrri hálfleik.
En við komum svolítið sofandi í byrjun seinni hálfleiks og fáum mark allt of snemma á okkur. Eftir það var þetta barningur, völlurinn erfiður til að skapa eitthvað og mikið um seinni bolta og návígi. En við fengum 1-2 fína sénsa til að ná að setja annað markið en það féll ekki fyrir okkur,“ sagði Sverrir Ingi.
En hvað gerðist í markinu sem gestirnir skoruðu?
„Þeir fara hærra á okkur, við erum yfir, og setja okkur undir pressu. Við þurfum að spila svolítið annan leik, lendum svolítið undir og þeir koma hlaupandi á okkur. Það gerðist í markinu sem þeir skoruðu. En fyrir utan það sköpuðu þeir sér engin færi, fyrir utan í restina. Þetta var ódýrt mark að fá á sig, mikil vonbrigði og dró svolítið úr okkur.“
Sverrir og félagar þurfa nú að búa sig undir leik við Liechtenstein á mánudagskvöld en þar er að litlu að keppa fyrir Ísland þar sem möguleikinn á að komast beint á EM er úr sögunni.
„Við þurfum að nýta þann leik vel. Það var margt gott í þessum leik, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þetta var svipað og í Slóvakíuleiknum í sumar, þar sem við áttum mjög góðan fyrri hálfleik en náðum ekki að tengja tvo hálfleiki saman. Við þurfum að gera það á mánudaginn. Við sáum að þegar við spilum eins og í fyrri hálfleik þá erum við hörkufótboltalið, sköpuðum mikið af færum og hefðum átt að ganga frá leiknum á því mómenti,“ sagði Sverrir.