Lærisveinar Xabi Alonso í Leverkusen hafa farið frábærlega af stað á tímabilinu og gátu með sigri náð toppsætinu á ný eftir að Þýskalandsmeistarar Bayern München settust í hásætið með 8-0 sigri á Darmstadt í gær, laugardag.
Hinn bráðefnilegi Florian Wirtz kom Leverkusen yfir á 36. mínútu eftir undirbúning Jeremie Frimpong. Báðir leikmenn hafa verið frábærir hjá Leverkusen undanfarna mánuði og er talið næsta víst að stærstu lið Evrópu reyni að festa kaup á þeim fyrr en síðar.
Aðeins var eitt mark skorað í fyrri hálfleik en það voru heimamenn í Leverkusen sem skoruðu annað mark leiksins eftir rétt rúma klukkustund, eða raunar var það Noah Atubolu, markvörður Freiburg, sem fékk boltann í sig eftir að skot Jonas Hofmann fór í stöngina. Boltinn fór af Atubolu og í netið, staðan orðin 2-0 og úrslitin svo gott sem ráðin. Eða hvað?
Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks minnkaði Manuel Gulde metin fyrir gestina eftir aukaspyrnu Vincenzo Grifo. Nær komust gestirnir ekki og Leverkusen vann dýrmætan 2-1 sigur.
5 - Bayer 04 Leverkusen won their first five Bundesliga home games of a season for the first time in 20 years - previously only achieved in 1986-87 and 2003-04. Fortress. #B04SCF pic.twitter.com/FiAZ3vT8xn
— OptaFranz (@OptaFranz) October 29, 2023
Í Frankfurt var Dortmund í heimsókn og var boðið til veislu. Omar Marmoush skoraði tvívegis fyrir Frankfurt áður en Marcel Sabitzer minnkaði muninn. Youssoufa Moukoko jafnaði metin en Fares Chaibi kom Frankfurt 3-2 yfir á 68. mínútu.
Þegar átta mínútur voru til loka venjulegs leiktíma jafnaði Julian Brandt metin og þar við sat, lokatölur 3-3.
Leverkusen er á toppi deildarinnar með 25 stig að loknum 9 leikjum. Dortmund er í 4. sæti með 21 stig, Frankfurt í 7. sæti með 14 og Freiburg sæti neðar með 13 stig.