Fótbolti

Messi og Ronaldo mætast lík­lega í síðasta sinn í febrúar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Messi og Ronaldo hafa háð harða baráttu á vellinum undanfarin ár.
Messi og Ronaldo hafa háð harða baráttu á vellinum undanfarin ár. Power Sport Images/Getty Images

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, tveir af bestu knattspyrnumönnum sögunnar, munu mætast á nýjan leik er Inter Miami og Al-Nassr eigast við í vináttuleik í febrúar á næsta ári.

Messi og Ronaldo hafa barist um sviðsljósið stóran hluta seinustu tveggja áratuga og hafa þeir háð harða baráttu bæði innan sem utan vallar. Titlarnir sem þeir tveir hafa unnið síðustu áratugi eru of margir til að fara að telja upp hér, en alls hafa þeir mæst 36 sinnum á vellinum. Messi hefur haft betur 16 sinnum, en lið Ronaldos hefur unnið 11 sinnum og níu sinnum hefur leikjum þeirra endað með jafntefli.

Farið er að síga á seinni hlutann á ferlinum hjá þessum mögnuðu knattspyrnumönnum og hafa þeir báðir sagt skilið við stærsta sviðið í evrópskum fótbolta. Messi er genginn til liðs við Inter Miami í Bandaríkjunum og Ronaldo er haldinn til Sádi-Arabíu þar sem hann leikur með Al-Nassr.

Inter Miami og Al-Nassr munu einmitt mætast í vináttuleik í febrúar á næsta ári. Leikurinn mun fara fram í Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, og verður hluti af Riyadh-bikarnum sem er æfingamót. Þetta verður í annað sinn sem þeir félagar mætast á þessu móti, en það gerðist einnig í Riyad-bikarnum er Messi var leikmaður Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×