Mikill árangur að uppgangur síðustu ára hafi ekki valdið ofþenslu í bankakerfinu
Það er eftirtektarverður árangur, sem má meðal annars þakka ströngu regluverki og góðri áhættustýringu bankanna, að þrátt fyrir mikinn uppgang í hagkerfinu þá hefur það ekki framkallað lánabólu eða ofþenslu í fjármálakerfinu. Til lengri tíma litið er hins vegar hætta á að háir vextir grafi undan eignagæðum í lánabókum bankanna, að sögn seðlabankastjóra, en erlendar fjármálastofnanir eru nú farnar að bjóða í suma af þeirra stærstu viðskiptavinum.
Tengdar fréttir
Sitja ekki á óinnleystu tapi vegna skuldabréfa sem hafa lækkað í verði
Íslensku viðskiptabankarnir fjórir sitja ekki á neinu óinnleystu tapi í bókum sínum í tengslum við mörg hundruð milljarða króna eign þeirra í skuldabréfum en ólíkt því sem átti við um Silicon Valley Bank (SVB), sem varð gjaldþrota fyrir helgi, eru slík verðbréf metin á markaðsvirði í reikningum bankanna hér á landi. Margir evrópskir bankar beita hins vegar sömu aðferð og SVB þar sem skuldabréfasafn þeirra er metið á kostnaðarverði en meðal annars vegna sterkrar lausafjárstöðu er ólíklegt að bankarnir neyðist til að selja þau bréf með afföllum, samkvæmt nýrri greiningu Moody´s.
Lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins hækkar í fyrsta sinn frá 2019
Matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands úr A í A+, sem endurspeglar útlit fyrir áframhaldandi kraftmikinn hagvöxt, en ef opinber fjármál styrkjast meira en nú er áætlað gætu verið forsendur fyrir enn frekari hækkun. Líklegt er að hækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs muni í framhaldinu sömuleiðis skila sér í uppfærslu á lánshæfismati íslensku bankanna en S&P gerir ráð fyrir að arðsemi þeirra verði áfram sterk sem geri þá vel í stakk búna til að mæta mögulegum auknum útlánatöpum.