Fótbolti

Ís­lendinga­fé­lag í Noregi sam­þykkti að snið­ganga HM í Sádi-Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlíus Magnússon hefur spilað vel í Noregi og hjálpaði Fredrikstad að komast upp í efstu deild.
Júlíus Magnússon hefur spilað vel í Noregi og hjálpaði Fredrikstad að komast upp í efstu deild. fredrikstadfk.no

Norska fótboltafélagið Fredrikstad vill berjast fyrir því að Norðmenn sniðgangi heimsmeistaramótið í fótbolta sem verður haldið eftir tíu ár.

Norska landsliðið hefur reyndar ekki komist á heimsmeistaramót í 26 ár eða síðan á HM í Frakklandi sumarið 1998.

Það breytir ekki því að það er umræða farin af stað innan norsku knattspyrnufjölskyldunnar um að mótmæla með beinum hætti að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, leyfi Sádum að halda heimsmeistaramótið eftir áratug.

Á ársþingi Fredrikstad var því kosið um það hvort að félagið ætti að setja pressu á norska knattspyrnusambandið að sniðganga heimsmeistaramót karla í fótbolta sem fer fram í Sádi-Arabíu árið 2034. Norska ríkisútvarpið segir frá.

Fredrikstad er fyrsta norska félagið sem fer þessa leið. Það munaði þó ekki miklu í kosningunni því 38 kusu með en 36 á móti. Sex sátu hjá.

Ástæðan eru mannréttindabrot sem eru viðhöfð í Sádi-Arabíu.

Fredrikstad komst upp í norsku úrvalsdeildina á ný síðasta haust með því að vinna norsku b-deildina nokkuð sannfærandi. Þetta sumar verður fyrsta sumar þess í deild þeirra bestu síðan árið 2012.

Með félaginu spilar íslenski miðjumaðurinn Júlíus Magnússon sem var áður fyrirliði Víkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×