Erlent

Leita fólks í ánni eftir að brúin hrundi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Francis Scott Key-brúin í Baltimore hrundi í nótt eftir að gámaskip sigldi á einn brúarstólpann.
Francis Scott Key-brúin í Baltimore hrundi í nótt eftir að gámaskip sigldi á einn brúarstólpann. AP Photo/Steve Ruark

Viðbragðsaðilar leita nú fólks í Patapsco-ánni, sem rennur í gegn um Baltimore í Bandaríkjunum. Talið er að nokkrir bílar hafi hafnað í ánni þegar Francis Scott Key brúin hrundi í kjölfar þess að fraktskip sigldi á hana í nótt. 

Gámaflutningaskipi var siglt á einn brúarstólpann klukkan hálf tvö í nótt að staðartíma og brúin hrundi í Patapsco-ána. Skipið sem sigldi á stólpann heitir Dali og er skráð í Singapúr. Talsmaður fyrirtækisins segir að enginn um borð í skipinu hafi slasast. 

Fréttastofa AFP hefur eftir slökkviliði borgarinnar að minnst tuttugu sé leitað. Slökkviliðið sagðist hins vegar ekki geta staðfest nákvæmlega fjölda þeirra sem er í ánni en vitað sé að nokkrar bifreiðar hafi hafnað í henni, þar á meðal stór bifreið. 

„Mannskaðinn er mikill og viðbragðsaðilar úr öllum áttum taka þátt í aðgerðum. Aðgerðirnar munu taka marga daga,“ segir Kevin Cartwright, talsmaður Slökkviliðs Baltimore, í samtali við Reuters.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×