Skoðun

Hverjir bera á­byrgð á að halda launum kvenna niðri?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Undanfarið hef ég fylgst af aðdáun með umfjöllun um kvenlækna sem flettu ofan af launamun kynja á Landspítalanum. Umfjöllunin hefur reyndar ekki farið nógu hátt, en þær komust að því að karlkyns sérfræðilæknar sem voru ráðnir seinna en þær fengu allir hærri laun en þær. Þær virðast hafa haft þó nokkuð fyrir því að grafa þessar upplýsingar upp og eiga mikið hrós skilið fyrir að taka þennan slag.

Það sem vekur þó sérstaka athygli í þessari umfjöllun er auðvitað hið augljósa. Landspítalinn er ein þeirra fjölmörgu stofnana sem greiða fyrir hina alræmdu jafnlaunavottun, lögum samkvæmt. Og ég sem sérstök áhugamanneskja um jafnlaunavottun hlýt að spyrja mig hvernig áralöng mismunun fólks með sömu menntun og ábyrgð, getur viðgengist þrátt fyrir þetta apparat.

Svarið liggur í augum uppi. Jafnlaunavottun er ekki bara kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum sem skilar engum marktækum árangri, hún er hreinlega skaðvaldur. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa þessa dyggðaskreytingu, geta hreinlega komist upp með að mismuna starfsfólki, enda með það uppáskrifað að allt sé upp á tíu hjá þeim í jafnlaunamálum. Formaður Læknafélags Íslands gengur svo langt að segja þetta kerfi veiti falskt öryggi fyrir jöfnum launum. Verkefnastjóri á mannauðssviði, sem rannsakaði jafnlaunavottun í meistaranámi sínu, bendir á að jafnlaunavottunin sé ákveðin „skrautfjöður“. Í henni felist gæðastimpill um að launaákvarðanir séu teknar á hlutlægan og málefnalegan hátt án mismununar. Það er aldeilis ekki raunin.

Ég hef lagt fram þingmál um þetta fyrirbæri, jafnlaunavottun, nú síðast frumvarp um að vottunin skuli vera valkvæð, en ekki skylda. Þarna er komin enn ein ástæðan fyrir því að afnema þennan óskapnað og ég vonast til að enn fleiri þingmenn sjá brýna þörf á því.

Það er kominn tími til að við gerum alvöru átak hér í að létta byrðum af atvinnulífinu. Leysum fyrirtæki og stofnanir úr viðjum sem við höfum lagt á þau!

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis




Skoðun

Sjá meira


×