Málið er rannsakað sem morðtilræði en árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem hinn tvítugi Thomas Matthew Crooks, frá Pennsylvaníu. Hann var skráður í Repúblikanaflokkinn, en er sagður hafa styrkt samtök hliðholl demókrötum um litla fjárhæð fyrir þremur árum. Hann mun hafa skotið ofan af þaki byggingar í um 130 metra fjarlægð frá Trump.
Samkvæmt upplýsingum sem Reuters hefur frá Alríkislögreglunni var Crooks einn að verki. Enn sé ekki vitað til þess að hann hafi átt við andleg veikindi að stríða eða hvort hatursorðræðu sé að finna undir hans nafni á netinu.
AP greinir frá því að mennirnir tveir sem særðust séu þeir David Dutch, 57 ára, og James Copenhaver, 74 ára. Sem fyrr segir er ástand þeirra stöðugt samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Pennsylvaníu.
Hinn fimmtugi Corey Comperatore lét lífið í árásinni. Comperatore starfaði sem slökkviliðsmaður og eiginkona hans segir hann hafa fórnað lífi sínu með því að stökkva í veg fyrir fjölskylduna sína þegar skotunum var hleypt af á fundinum.
Donald Trump hætti við að fresta landsfundi Repúblikanaflokksins vegna skotárásarinnar í gær. Trump var leiddur út af fundinum og fluttur á sjúkrahús eftir að hafa verið skotinn í eyrað.
Til stóð að fresta fundinum fram á miðvikudag en samkvæmt áætlun fer fundurinn fram í Milwaukee í Wisconsin-ríki á morgun.