Fjöldi stórfelldra og meiri háttar líkamsárása á landinu hefur aukist mikið síðustu ár en slík mál voru þrjátíu prósent fleiri í fyrra en árið 2020. Á þessu ári eru þau nú þegar orðin næstum jafn mörg og allt árið 2020 eða 60 talsins.
Á sama tíma hefur orðið tvöföldun í fjölda alvarlegra mála þar sem hnífur fannst á vettvangi. Á þessu ári kemur hnífur við sögu í ríflega sjö prósentum mála en var í um þremur prósentum mála árið 2020.
Þá hafa alvarleg ofbeldisbrot ungmenna 13 -15 ára fjórfaldast frá árinu 2014. Hnífar koma einnig oftar við sögu í slikum málum en áður.
Sextán ára stúlka er nú í lífshættu eftir hnífaárás á menningarnótt þar sem tveir jafnaldrar hennar urðu líka fyrir hnífstungum en eru minna slösuð. Piltur á sama reki situr nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Lögregla segir rannsókn miða vel en gefur ekki upp frekari upplýsingar að svo stöddu.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er slegin vegna málsins og hefur áhyggjur af þróuninni.
„Mér varð verulega brugðið vegna þessarar árásar á sunnudaginn. Við höfum haft miklar áhyggjur af auknum vopnaburði ungmenna,“ segir hún.
Guðrún segir nú þegar í gangi aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn ofbeldi ungmenna. Hún hafi verið kynnt í sumar.
„Meðal annars er verið að fjölga samfélagslögreglumönnum sem ég bind miklar vonir við,“ segir hún.
En fleiri þurfi að leggjast á árarnar.
„Þetta er ekki einkamál eins eða neins. Við þurfum sem samfélag að takast á við þennan vanda. Þá kalla ég á aukið samtal við börnin okkar, foreldra ,heimilin, skóla, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög og stjórnvöld,“ segir Guðrún að lokum.