Birgir er staddur við kosningaeftirlit í Bandaríkjunum en Vísi tókst að ná stuttu tali af honum milli funda. Spurt er um tilefni fyrirspurnar hans.
„Ég hef svo sem fengið dæmi um að fólk hafi verið ósátt við fréttaflutning. Það var komið að máli við mig og nefnd dæmi, sem ég get ekki endurtekið. En mér þótti eðlilegt að kanna þetta. Hvort það eitthvað um að kvartað væri undan fréttaflutningi og þá í garð einstaklinga,“ segir Birgir.
Fyrirspurnin er skrifleg og í fjórum liðum:
1. Hversu margar kvartanir hafa borist Ríkisútvarpinu sl. fimm ár sem lúta að óviðeigandi fréttaumfjöllun stofnunarinnar og hvers eðlis voru þessar kvartanir?
2. Hefur stofnunin beðist opinberlega afsökunar á fréttaumfjöllun í kjölfar kvartana? Ef svo er, hversu oft var beðist afsökunar og hvers eðlis voru þær fréttaumfjallanir?
3. Telur ráðherra að Ríkisútvarpið hafi brotið lög með óviðeigandi fréttaumfjöllun á síðastliðnum fimm árum?
4. Til hvaða aðgerða hefur verið gripið af hálfu Ríkisútvarpsins til að koma í veg fyrir óviðeigandi fréttaumfjöllun?