„Ég kom hingað bara í gærkvöldi [náði ekki æfingu með liðinu] og er enn að finna út úr hlutunum. Ég reyndi bara að hjálpa liðinu eins mikið og ég gat og fékk að kynnast liðsfélögum mínum inni á vellinum,“ sagði Nikolas um leikinn.Hann spilaði tæpar 25 mínútur, skoraði fjórtán stig og gaf eina stoðsendingu.
Lenti í gærkvöldi
Þetta hefur verið strembinn sólarhringur en það var ekki að sjá á frammistöðunni að Nikolas væri nýkominn til landsins.
„Við fórum aðeins yfir hlutina í gærkvöldi og ég fékk að hitta strákana í dag, ég þekki auðvitað einhverja fyrir. Spilamennskan mun bara batna eftir því sem við spilum oftar saman.“
Ekki ókunnugur Íslandi
Nikolas hefur áður spilað hérlendis, hann var í aðalhlutverki hjá Þór veturinn 2018-19, og skoraði þá að meðaltali 22,8 stig, gaf 7,6 stoðsendingar og tók 3,9 fráköst.
Hann skilaði litlu síðri tölum hjá Stjörnunni veturinn eftir það og varð bikarmeistari með Garðbæingum, og var svo einnig lykilmaður hjá Tindastóli leiktíðina 2020-21, áður en hann kvaddi Ísland í bili.
Tomsick, sem er 33 ára gamall, hefur spilað í Kósovó, Tékklandi, Belgíu og nú síðast Hollandi eftir að hann fór frá Íslandi.
„Þetta hefur verið frábær tími en það er frábært að snúa aftur til Íslands. Ég er mjög ánægður að vera mættur aftur og hlakka til að hjálpa liðinu.“
Stefnan sett á titil
Þegar Nikolas fór af landinu 2021 var Þór nýorðinn Íslandsmeistari. Liðið hefur ekki sýnt sömu takta síðan þá en stefnan er að sjálfsögðu sett á titil í vor.
„Það er markmiðið. Ég er ekki mættur aftur til Íslands til að vera miðlungs. Þeir vilja vinna, ég vil vinna, þannig að markmiðið er að sjálfsögðu að vinna titla,“ sagði Nikolas að lokum.