Útförin hófst í dag með því að bílalest fylgdi líkbíl með kistu forsetans frá Plains, heimabæ Carters í Georgíuríki, til borgarinnar Atlanta í sama ríki. Þar mun kista forsetans fyrrverandi liggja og fólk getur vottað honum virðingu sína í tvo daga.

Þann 7. janúar verður Carter flogið til Wsahington D.C., höfuðborgar Bandaríkjanna, þar sem fer fram opinber útför. Að henni lokinni mun fólki gefast kostur á að votta Carter virðingu sína í aðra tvo daga, þar sem hann mun liggja í hvelfingu þinghúss Bandaríkjanna.
Þann 9. janúar fer fram minningarathöfn í þjóðardómkirkjunni í Washington D.C. Meðal þeirra sem fá boð í athöfnina eru fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, en fjórir sem gegnt hafa embættinu eru enn á lífi í dag. Búist er við því að þeir mæti allir til athafnarinnar, ásamt eiginkonum sínum.

Carter var líkt og áður sagði 39. forseti Bandaríkjanna, en hann gegndi embættinu í eitt kjörtímabil, árin 1977 til 1981. Hann sóttist eftir endurkjöri en laut í lægra haldi fyrir Ronald Reagan. Carter fagnaði hundrað ára afmæli þann 1. október síðastliðinn.
Eiginkona Carters, Rosalynn Carter, lést í nóvember 2023, 96 ára að aldri. Þau höfðu verið gift frá árinu 1946. Blaðamaður Vísis gerði lífshlaupi Carters ítarleg skil í október á síðasta ári, þegar Carter varð hundrað ára. Þá umfjöllun má sjá hér að neðan.