Erlent

Jimmy Car­ter kvaddur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Á skiltunum segir að Carter hafi verið heiðursmaður, og honum þakkað fyrir störf sín í þágu Bandaríkjanna.
Á skiltunum segir að Carter hafi verið heiðursmaður, og honum þakkað fyrir störf sín í þágu Bandaríkjanna. Alex Brandon/Getty

Sex daga útför Jimmy Carter, 39. forseta Bandaríkjanna, er hafin. Carter lést 29. desember síðastliðinn, 100 ára að aldri.

Útförin hófst í dag með því að bílalest fylgdi líkbíl með kistu forsetans frá Plains, heimabæ Carters í Georgíuríki, til borgarinnar Atlanta í sama ríki. Þar mun kista forsetans fyrrverandi liggja og fólk getur vottað honum virðingu sína í tvo daga.

Fólk bíður hér eftir því að útförin hefjist.AP

Þann 7. janúar verður Carter flogið til Wsahington D.C., höfuðborgar Bandaríkjanna, þar sem fer fram opinber útför. Að henni lokinni mun fólki gefast kostur á að votta Carter virðingu sína í aðra tvo daga, þar sem hann mun liggja í hvelfingu þinghúss Bandaríkjanna. 

Þann 9. janúar fer fram minningarathöfn í þjóðardómkirkjunni í Washington D.C. Meðal þeirra sem fá boð í athöfnina eru fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, en fjórir sem gegnt hafa embættinu eru enn á lífi í dag. Búist er við því að þeir mæti allir til athafnarinnar, ásamt eiginkonum sínum.

Líkbíll forsetans fyrrverandi nemur hér staðar við búgarðinn þar sem Carter sleit barnskónum.AP

Carter var líkt og áður sagði 39. forseti Bandaríkjanna, en hann gegndi embættinu í eitt kjörtímabil, árin 1977 til 1981. Hann sóttist eftir endurkjöri en laut í lægra haldi fyrir Ronald Reagan. Carter fagnaði hundrað ára afmæli þann 1. október síðastliðinn.

Eiginkona Carters, Rosalynn Carter, lést í nóvember 2023, 96 ára að aldri. Þau höfðu verið gift frá árinu 1946. Blaðamaður Vísis gerði lífshlaupi Carters ítarleg skil í október á síðasta ári, þegar Carter varð hundrað ára. Þá umfjöllun má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Jimmy Carter látinn

Jimmy Carter fyrrverandi forseti Bandaríkjanna er látinn. Hann varð hundrað ára gamall. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×