Upp­gjörið: Kefla­vík - Valur 77-65 | Anna Ingunn reyndist Kefla­vík dýr­mæt á ögur­stundu

Hjörvar Ólafsson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir og Sara Rún sáttar.
Thelma Dís Ágústsdóttir og Sara Rún sáttar. Vísir/Diego

Keflavík lagði Val að velli 79-65 þegar liðin áttust við í 12. umferð Bónus-deildar kvenna í körfubolta í Blue-höllinni í Keflavík í kvöld.

Anna Ingunn Svansdóttir raðaði niður þristum og stigum af vítalínunni undir lok leiksins og frammistaða hennar lagði grunninn að sigri Keflavíkur í kaflaskiptum leik.

Heimakomur sem léku undir stjórn Elentínusar Guðjóns Margeirssonar í fyrsta skipti hófu leikinn betur en Jasmine Dickey fór fyrir liðinu sem var 32-17 yfir eftir fyrsta leikhluta. 

Valur saxaði þó á forskot Keflavíkur í öðrum leikhluta og staðan 41-31 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. 

Gestirnir frá Hlíðarenda komu síðan einkar sterkir inn í seinni hálfeikinn og komust yfir í fyrsta skipti síðan um miðjan fyrsta leikhluta í upphafi þriðja leikhluta. 

Alyssa Marie Cerino setti niður þrista á þeim kafla þar sem Valsliðið kom sér almennilega inn í leikinn og meiri töggur var í vörninni. 

Anna Ingunn Svansdóttir lék á als oddi í þessum leik. Vísir/Hulda Margrét

Leikmenn Keflavíkur snéru aftur á móti taflinu aftur sér í vil í fjórða leikhluta en þar skipti innkoma Önnu Ingunnar sköpunm. Anna Ingunn hafði ekki setti stig á töfluna þar til það kviknaði all hressilega á henni um miðjan fjórða leikhluta. 

Þrjár þriggja stiga körfur og sex stig af vítalínunni úr jafn mörgum tilraunum á skömmum tíma urðu til þess að Keflavík landaði að lokum sannfærandi sigri í höfn. 

Keflavík jafnaði liðin sem koma á eftir forsytusauðum deildarinnar, Haukum, sem hafa 20 stig á toppnum. Keflavík, Þór Akureyri, Tindastóll og Njarðvík koma þar á eftir með 16 stig hvert lið. 

Valur, Stjarnan og Hamar/Þór Þorlákshöfn eru svo með átta stig en Aþena og Gindavík reka lestina með sex stig. 

Elentínus Guðjón Margeirsson er hér lengt til vinstri á myndinni. Mynd/Keflavík

Elentínus Guðjón: Anna Ingunn átti stórkostlega innkomu

„Þetta var heilt yfir bara flott frammistaðan fyrir utan stuttan kafla í upphafi þriðja leikhluta. Liðsvörnin var flott og flæðið var gott í sóknarleiknum fyrir utan smá hik þegar við komum inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Elentínus Guðjón Margeirsson sem tók við Keflavíkurliðinu þegar Friðrik Ingi Rúnarsson sagði skilið við liðið skömmu fyrir jól. 

„Anna Ingunn átti stórkostlega innkomu inn í þennan leik og það var frábært að sjá hana geisla af sjálfstrausti og spila svona vel þegar við þurftum á framlagi að halda. Annars áttu allar sem spiluðu í kvöld góðan leik og liðið spilaði heilt yfir vel,“ sagði Elentínus Guðjón enn fremur. 

„Við fórum vel yfir varnarleikinn okkar í fríinu yfir hátíðarnar og ég var mjög ánægður með hvernig við framkvæmdum það sem við höfum verið að fara yfir hvað varðar vörnina hjá okkur. Sóknarleikurinn var svo lungann úr leiknum góður en við getum bætt okkur á báðum endum vallarins,“ sagði hann. 

Aðspurður um hvort hann hafi áhuga á að stýra Keflavíkurliðinu áfram sagði Elentínus: „Þetta er mjög skemmtilegur hópur ég hef mjög gaman að því að vinna með þessum leikmönnum. Við höfum rætt málin hvað varðar áframhaldið en það hefur ekkert verið ákveðið. Ég hef klárlega áhuga á að halda áfram að stýra liðinu og klára tímabilið í brúnni.“

Jamil Abiad: Það var margt jákvætt þrátt fyrir tap

„Við spiluðum vel í 30 mínútur en það er bara ekki nóg gegn jafn sterku liði og Keflavík hefur á að skipa. Eftir að við komum okkur almennilega inn í leikinn þá fórum við út úr leikplaninu vorum latar í varnarleiknum og agalausar í okkar aðgerðum. Það varð okkur að falli,“ sagði Jamil Abiad, þjálfari Vals. 

„Leikmenn í þeim gæðaflokki og Keflavík hefur innanborðs refsar grimmilega fyrir öll mistök sem þú gerir og við fengum að finna fyrir því í kvöld. Þegar þú gefur þeim opin skot þá taka þær þau fegins hendi og skjóta þig í kaf. Það var uppi á teningnum að þessu sinni því miður,“ sagið Jamil þar að auki um spilamennsku lærimeyja sinna. 

„Þrátt fyrir tapið og hvernig við köstuðum þessu frá okkur þá getum við tekið fjölmargt jákvætt út úr þessum leik inn í næstu leiki okkar. Við spiluðum af mikilli orku og ákefð á löngum köflum. Við fengum Ástu Júlíu til baka og hún sýndi hversu mikilvæg hún er fyrir okkur í þessum leik,“ sagði hann upplitsdjarfur. 

„Nú þurfum við bara að halda áfram að bæta leik liðsins og lengja góðu kaflana í komandi verkefnum okkar. Við þurfum að sýna meiri stöðugleika og aga í því sem við erum að gera í gegnum allan leikinn. Það er ekki nóg að spila vel í þrjá leikhluta eins og við gerðum að þessu sinni,“ sagði þjálfarinn um komandi tíma. 

Jamil Abiad, þjálfari Vals, gat týnt til ýmislegt jákvætt þrátt fyrir svekkjandi tap. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Atvik leiksins

Anna Ingunn setti upp sýningu þegar mest á reyndi en hún raðaði niður þristum þegar Keflavíkurliðið þurfti sárlega á einhverjum töfrum að halda. Þá var hún svellköld á vítalínunni og var með fullkomna nýtingu þar. 

Stjörnur og skúrkar

Jasmine Dickey dró vagninn í sóknarleik Keflavíkur framan af leiknum en Anna Ingunn og Sara Rún Hinriksdóttir tóku við keflinu af henni þegar líða tók á leikinn. Anna Lára Vignisdóttir átti einnig góða spretti. 

Alyssa Marie Cerino, Jiselle Elizabeth Valentine Thomas og Ásta Júlía Grímsdóttir voru hins vegar fremstar á meðal jafningja hjá Valsliðinu. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Davíð Tómas Tómasson, Ingi Björn Jónsson og Federick Alfred U Capellan, höfðu afar góð tök á þessum leik. Voru fumlausir í öllum ákvörðunum sínum og á sama tíma og þeir voru röggsamir þá fékk leikurinn að flæða án þess að dómarar væru í aðalhlutverki sem er ávallt jákvætt. 

Stemming og umgjörð

Það var fínasta mæting í Keflavík í kvöld en bæði lið voru rækilega studd af stuðningsmönnum sínum. Létt var yfir fólki og liðin fengu hávær hvatningaróp allan leikinn ekki síst þegar liðin þurftu á því að halda í mótlæti. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira