Upp­gjörið: Kefla­vík - Höttur 112-98 | Fyrsti sigur Kefl­víkinga á árinu

Andri Már Eggertsson skrifar
anton keflavík
vísir/Anton

Keflavík komst aftur á sigurbraut eftir fjórtán stiga sigur gegn Hetti 112-98. Eftir brösóttan fyrsta leikhluta gáfu heimamenn í og litu aldrei um öxl eftir það. 

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og liðin skiptust á körfum. Það var mikill hraði strax frá byrjun en stundum leit út fyrir að hraðinn væri of mikill fyrir bæði lið sem leiddi til mistaka.

Um miðjan fyrsta leikhluta gerðu gestirnir frá Egilsstöðum sjö stig í röð og voru skrefi á undan það sem eftir var í fyrsta fjórðung.

Það var allt annað að sjá lið Keflavíkur spila í öðrum leikhluta þar sem hlutirnir gengu töluvert betur og þeirra stíll skein í gegn. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, tók leikhlé í stöðunni 48-42 en þá höfðu Keflvíkingar gert sjö stig í röð.

Heimamenn gerðu 37 stig í öðrum leikhluta sem var 14 stigum meira heldur en í fyrsta leikhluta. Keflvíkingar voru sjö stigum yfir í hálfleik 60-53.

Ty-Shon Alexander var í banastuði í upphafi seinni hálfleiks. Á tæplega níutíu sekúndum gerði hann tíu stig á meðan Höttur gerði aðeins tvö stig. Ty-Shon endaði á að gera fimmtán stig í þriðja leikhluta.

Heimamenn unnu þriðja leikhluta með tíu stigum og voru sautján stigum yfir þegar haldið var í síðasta fjórðung 93-76.

Keflvíkingar héldu sínu striki í fjórða leikhluta. Eftir því sem leið á fjórða leikhluta var aðeins spurning hversu stór sigur Keflavíkur yrði og hvenær allir á varamannabekknum myndu fá að spila.

Leikurinn endaði með fjórtán stiga sigri heimamanna 112-98.

Atvik leiksins 

Frosti Sigurðsson, leikmaður Keflavíkur, kveikti í húsinu þegar hann gerði síðustu körfu heimamanna þar sem hann fékk greiða leið að körfunni og tróð með tilþrifum sem gladdi stuðningsmenn Keflavíkur mikið. 

Stjörnur og skúrkar

Ty-Shon Alexander, leikmaður Keflavíkur, fór á kostum í kvöld og spilaði sinn besta leik fyrir félagið. Hann var stigahæstur með 35 stig, hann gaf 8 stoðsendingar og endaði með 40 framlagspunkta.

Jarell Reischel var einnig öflugur í liði Keflavíkur. Hann gerði 18 stig, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Justin Roberts, leikmaður Hattar, náði sér ekki á strik í kvöld og hitti afar illa. Justin tók þrettán skot úr opnum leik og hitti aðeins úr tveimur. Með hann inn á tapaði Höttur með 23 stigum

Dómararnir [5]

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Gunnlaugur Briem og Guðmundur Ragnar Björnsson.

Leikurinn gekk nokkuð smurt fyrir sig og dómararnir þurftu ekki að taka margar erfiðar ákvarðanir. Keflvíkingar voru ekki sáttir þegar Gedeon Dimoke tók hreyfingu sem endaði með að olnboginn á honum fór í andlitið á Sigurði Péturssyni en Dimoke fékk tvö vítaskot. 

Stemning og umgjörð

Það var nokkuð vel mætt í Blue-höllina og það var fín stemning hjá heimamönnum og yngri stuðningsmenn Keflavíkur kölluðu eftir að Nikola Orelj fengi mínútur í fjórða leikhluta.

Stuðningsmennirnir fengu ósk sína uppfyllta þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og þá var kallað eftir Frosta Sigurðssyni sem kom inn á í kjölfarið.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var svekktur eftir tap gegn Keflavík.

„Við erum að reyna en hugarfarið þarf að breytast“

Viðar Örn Hafsteinsson var svekktur eftir tap kvöldsins vísir / anton brink

„Þegar Ty-Shon Alexander byrjaði seinni hálfleik af krafti fór trúin hjá okkur og við ætluðum að sigra heiminn í hverri vörn og sókn. Mér fannst við fínir fram að því en þarna hrundi þetta eins og spilaborg,“ sagði Viðar og hélt áfram.

„Þeir fóru að hitta úr opnum skotum og við fórum að gefa þeim fleiri skot þar sem þeir gripu boltann og tóku skot í staðinn fyrir að setja boltann í gólfið. Það var margt fínt í þessu en þetta er svo sveiflukennt hjá okkur. Það vantar í okkur að við höldum áfram þrátt fyrir að við fáum á okkur nokkur stig í röð.“

Aðspurður út í hvort hann hefði átt að taka leikhlé og bregðast við þegar Ty-Shon Alexander gerði tíu stig á níutíu sekúndum sagði Viðar að mögulega hefði hann átt að gera það.

 „Kannski hefði ég átt að gera það en hann setti tvö mjög erfið skot ofan í og ef hann hefði haldið svona áfram út leikinn og hitt svona þá mega þeir bara vinna okkur,“ 

Sá Viðar uppgjöf í sínu liði í fjórða leikhluta?

„Nei nei. Við erum að reyna en hugarfarið þarf að breytast og vera tengt liðinu og við þurfum að verjast sem heild og þegar við erum að spila sem lið sóknarlega þá erum við fínir. Þegar við vorum í fínum málum og átta stigum yfir kom ein villa sem mönnum fannst ekki sanngjörn þá fóru allir að einbeita sér að því,“ sagði Viðar Örn að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira