Skoðun

Frelsi til sölu

Anton Guðmundsson skrifar

Með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar hefur umræðan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) aftur færst í brennidepil. Viðreisn, sem hefur lengi gert ESB-aðild áberandi málstað sinn, hefur nú fengið tækifæri til áhrifa innan þessarar samsteypu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, fór til Brussel á fund stækkunarstjóra ESB, og sagði talsmaður hans í kjölfarið að aðildarumsókn Íslands væri virk þrátt fyrir að Ísland hafi dregið umsókn sína til baka á sínum tíma. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að utanríkisráðherra hefði fyrst og fremst farið til að koma á eðlilegum samskiptum nýrrar ríkisstjórnar við ESB.

Aðildarríki ESB greiða framlag til sambandsins, sem er notað til að fjármagna verkefni og stofnanir ESB. Ísland þyrfti að leggja fram verulegar fjárhæðir, sem gætu verið íþyngjandi fyrir litla þjóð. Með inngöngu í ESB yrði Ísland skuldbundið til að fylgja lögum og reglum sambandsins. Margir telja að þetta gæti takmarkað sveigjanleika Íslands við að setja eigin reglur sem henta sérstökum aðstæðum landsins. 

Aðild að ESB myndi þýða að Ísland yrði hluti af sameiginlegu tollabandalagi. Þetta gæti leitt til aukins innflutnings á ódýrari landbúnaðarvörum frá öðrum löndum innan sambandsins. Ísland hefur miklar og einstakar endurnýjanlegar orkulindir, eins og vatnsafl og jarðhita. Með ESB-aðild gæti landið þurft að opna fyrir frjálsari aðgang að auðlindunum og jafnvel samþykkja eignarhald erlendra aðila á þessum auðlindum. Sjávarútvegur, sem er ein af lykilstoðum íslensks efnahags, myndi einnig þurfa að fylgja sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, sem gæti þýtt minni stjórn yfir eigin fiskimiðum.

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ




Skoðun

Sjá meira


×