Erlent

Hótar Kólumbíu refsitollum taki þeir ekki við brott­reknu fólki

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump á leið til Flórída um borð í forsetavél sinni. Kollegi hans í Kólumbíu hefur boðist til þess að hans vél verði notuð til að flytja brottrekna frá Bandaríkjunum í stað herflutningavéla. 
Trump á leið til Flórída um borð í forsetavél sinni. Kollegi hans í Kólumbíu hefur boðist til þess að hans vél verði notuð til að flytja brottrekna frá Bandaríkjunum í stað herflutningavéla.  AP Photo/Mark Schiefelbein

Svo virðist sem ekkert verði úr hótunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að setja 25 prósenta refsitoll á allar vörur frá Kólumbíu.

Hvíta húsið segir í það minnsta að samkomulag hafi náðst í deilu ríkjanna en Trump og forseti Kólumbíu, Gustavo Pedro, deildu harkalega í gærkvöldi og í nótt en deilan fór að mestu fram í gegnum samfélagsmiðla.

Átökin hófust þegar Kólumbía neitaði að veita bandarískum herflugvélum sem voru með ólöglega innflytjendur innanborðs lendingarleyfi í Kólumbíu. Forseti landsins sagðist ekki taka við brottfluttu fólki við slíkar niðurlægjandi aðstæður og krafðist þess að herflugvélar yrðu ekki notaðar við verkið, heldur venjulegar farþegaflugvélar. Á einum tímapunkti bauðst hann meira að segja til þess að nota flugvél forsetaembættisins til þess arna.

Trump brást ókvæða við þessum umkvörtunum Kólumbíuforseta og svaraði um hæl að refsitollur yrði þegar í stað lagður á allar kólumbískar vörur. Kaffútflutningur til Bandaríkjanna er Kólumbíu til dæmis gríðarlega mikilvægur og því mikið í húfi. Skömmu síðar kom yfirlýsing frá Hvíta húsinu um að Kólumbía ætli eftir allt saman að leyfa lendingu herflugvéla með ólöglega innflytjendur.

Þær flugvélar eru hinsvegar ekki lentar og segja bandarísk stjórnvöld að refsitollarnir verði til reiðu og þeir settir á samstundis, verði flugvélunum snúið frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×