Viðskipti innlent

Flýta sér hægt í leit að dag­skrár­stjóra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að staðan verði auglýst þó ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að staðan verði auglýst þó ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær. Vísir/Vilhelm

Útvarpsstjóri segir til standa að auglýsa á næstunni starf dagskrárstjóra Ríkisútvarps sjónvarps eftir að Skarphéðinn Guðmundsson lét af störfum um áramótin.

Það var nokkuð óvænt að út spurðist að Skarphéðinn hefði sagt starfi sínu lausu í desember. Hann sagði alla eiga sinn vitjunartíma og nú væri komið að tímamótum. Áramótin væru ljómandi tími til að söðla um.

„Það er kominn góður tími og tími á annars konar áskoranir fyrir mig. Og tími fyrir nýtt blóð, í starf sem er krefjandi. Það kallar á endurnýjun reglulega. Þetta er þýðingarmikið starf og mikilvægt að sjá til þess að það væri kominn tími á endurnýjun og nýtt blóð.“

Margrét Jónasdóttir aðstoðardagskrárstjóri hefur sinnt starfinu frá áramótum. Það hefur enn ekki verið auglýst. 

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í svari við skriflegri fyrirspurn að til standi að setja út auglýsingu fyrir starfið og febrúar eða mars sé líklegu tímasetning slíkra skilaboða.

Telja má líklegt að einhverja klæi í puttana að fá um það að segja í hvaða verkefni Ríkisútvarpið setji peningana varðandi innlenda dagskrá í sjónvarpi. Margrét aðstoðardagskrárstjóri er reynslumikil í bransanum og fleiri reynsluboltar eru á lausu. Eva Georgsdóttir sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 sem nýlega sagði starfi sínu lausu og sömuleiðis Þóra Björg Clausen fyrrverandi dagskrárstjóri Stöðvar 2. Svo mætti nefna Magnús Ragnarsson og Þórhall Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra miðla hjá Símanum og Sýn.


Tengdar fréttir

Þóra kveður Stöð 2

Þóra Björg Clausen hefur sagt upp störfum sem dagskrárstjóri Stöðvar 2. Hún hefur starfað hjá Sýn í tíu ár og segir ákvörðunina ekki auðvelda. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×