Innlent

Ekkert rætt um borgar­stjórann sem verður „vonandi kona“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Líf Magneudóttir, Helga Þórðardóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir hafið byrjað formlegar meirihlutaviðræður.
Líf Magneudóttir, Helga Þórðardóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir hafið byrjað formlegar meirihlutaviðræður. Vísir/Einar

Oddvitar fimm flokka sem hafa hafi formlegar meirihlutaviðræður segja mikið traust ríkja í viðræðunum. Samstarfið byggir á félagslegum grunni og verður lögð áhersla á húsnæðis- og skólamál. Ekkert hefur verið rætt um borgarstjóraembættið.

Margrét Helga Erlingsdóttir náði tali af oddvitum flokkanna fimm, Samfylkingar, Pírata, Sósíalista, Vinstri grænna og Flokks fólksins, sem tilkynntu í dag að meirihlutaviðræðurnar væru formlega hafnar.

„Við höfum ákveðið að setjast niður og bara tala um borgina okkar, hvernig við viljum breyta henni og hvernig við viljum þjóna fólkinu betur í borginni. Við höfum talað mikið saman undanfarna daga,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar.

„Og treystum hver annarri, það ríkir mikið traust á milli okkar og við viljum vinna fyrir fólkið í borginni,“ sagði Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins.

Gæsahúð vegna samstöðunnar

Viðræður undanfarinna daga voru óformlegar og nú hefjast þær formlega. Rúmt ár er til kosninga og því ekki mikill tími til stefnu.

„Við höfum byrjað þetta formlega samtal. Við erum búin að vera að tala mikið saman síðustu daga og sjáum að það er mikill samhljómur. Við erum fimm flokkar og erum auðvitað ekki sammála um allt en það er mjög margt sem við erum sammála um. Ég held við getum gert mjög góða áætlun, unnið sterkt og þétt saman og komið mörgu góðu í verk,“ sagði Heiða Björg.

„Þetta er sprettur, það er bara rúmt ár til kosninga þannig við þurfum að bretta upp ermar og hlaupa hratt. Það er svo gott að finna að það er svo mikil samstaða um það sem við þurfum að gera og verkefnin þannig ég fæ bara gæsahúð þegar ég tala um það. En við verðum líka að vera jarðbundnar og raunsæjar,“ sagði Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna þá.

Samstarf á félagslegum grunni með áherslu á húsnæðismál 

Það er svo stutt eftir. Hafið þið ekki þurft að forgangsraða verkefnunum alvarlega?

„Það sem við getum sagt núna er að við höfum ákveðið að fara í samstarf á félagslegum grunni. Það er byrjunin og fyrsta skrefið og við höldum áfram og munum vanda okkur vel,“ sagði Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins.

Hvað meiniði með því? Eruði að tala um hvað húsnæðisuppbyggingu varðar?

Húsnæðismál og velferðarmál eru ofarlega á baugi hjá oddvitunum.Vísir/Einar

„Þetta er mjög margt sem við þurfum að ræða og við þurfum að vera einbeittar en ég held ég tali fyrir hönd okkar allra þegar húsnæðismál eru þar undir,“ sagði Sanna.

„Og skólamál,“ bætti Líf þá við.

„Þetta snýst um að taka vel utan um alla íbúa, hvaðan sem þeir svo sem koma og hvaða stöðu þeir eru í. Vera hérna fyrir fólkið. Við erum að vinna fyrir fólkið og viljum vinna með fólkinu og stunda lýðræðisleg vinnubrögð. Það er mikill samhljómur um það, taka vel utan um börn og fólk þannig öllum líði vel í borginni,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata.

„Þetta var fyrsta skrefið og svo eigum við enn eftir að taka mörg skref. Núna hefst formlega vinnan,“ sagði Líf og bætti við að það felist í því að maður tali ekki við aðra flokka. „Þetta er formgert og orðið formlegt.“

Ekki verið að halda áfram með gamla meirihlutann

Píratar og Samfylkingin eru einu flokkarnir sem koma úr gamla meirihlutanum. Fólki leikur því forvitni á að vita hvernig áherslur nýs meirihluta breytast.

Það eru komnir þrír nýir flokkar, verður þetta ekki öðruvísi meirihluti?

„Við erum auðvitað að byrja nýjan meirihluta, við erum ekkert að halda neinu áfram. Þetta er byggt á nýjum grunni og við erum ánægðar og spenntar fyrir því. Fá aðeins að opna og gera þetta öðruvísi,“ sagði Heiða.

Ráðhúsið er borgarstjóralaust þessa dagana.Vísir/Einar

„Ég er bara spennt fyrir því að hugsa algjörlega nýtt. Ekki bara um verkefnin og að leyfa okkur að gera hluti sem við kannski gátum ekki gert áður með öðrum flokkum heldur líka hvernig við vinnum, aðferðafræðin og hvernig tölum um það, hvort sem það er meirihlutasamstarf eða bara samstarf. Við viljum sameinast um verkefnin, láta verkefnin ráða för, vinna fyrir fólk og ekki flækjast í öðru,“ sagði Dóra Björt.

„Ég finn fyrir rosalega mikill spennu, gleði og þakklæti,“ bætti hún við.

„Við erum spenntar að fara að geta sett þetta niður á blað og kynnt þetta fyrir fólki,“ sagði Heiða.

Þurfa að forgangsraða og hagræða

Málefnin sem þær hyggjast leggja á séu húsnæðismál, skólamál og velferðarmál.

Hvernig verður þessu háttað?

„Þetta er akkúrat eitthvað af þessum aðgerðum sem við þurfum að móta saman og kynna, vonandi mjög fljótlega,“ sagði Heiða.

„Sannarlega, það er það sem við viljum horfa á. Við þurfum að koma okkur saman um hvar og hvernig. Þannig það er vinnan og svo þurfum við líka að forgangsraða og sjálfsagt hagræða til þess að eiga meira fyrir fólkið,“ sagði Helga.

Oddviti Flokks fólksins svaraði því játandi þegar hún var spurð hvort þessi meirihluti ætli sér að skipuleggja nýtt hverfi. Þó eigi eftir að útfæra það betur.

Borgarstjórinn „vonandi kona“

Það er auðvitað verkefni sem skiptir öllu máli en borgarbúum þykir samt sem áður vænt um borgarstjórann sinn. Er komin einhver niðurstaða í það hver verður borgarstjóri?

„Nei, við höfum ekki einu sinni rætt það,“ sagði Helga.

„Vonandi kona,“ sagði Dóra þá.

Einar Þorsteinsson var borgarstjóri en sleit meirihlutasamstarfinu og verður því sennilega í minnihluta.Vísir/Vilhelm

„Við erum að einblína á málefnin en ekki hver situr í hvaða embættum. Það er mikilvægt að við ræðum núna málefnin og hvernig við ætlum að tryggja borg sem er svo sannarlega fyrir okkur öll,“ sagði Sanna.

„Við vonum að eftir þennan sprett okkar þyki borgarbúum bara vænt um borgarfulltrúana sína en ekki bara borgarstjórann. Sýna ný viðbrögð og breiðari ásýnd,“ sagði Heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×