Erlent

Leita í neyðarbirgðirnar til að knýja fram verð­lækkun á hrís­grjónum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hrísgrjónaakrar í Japan.
Hrísgrjónaakrar í Japan. Getty/David Madison

Stjórnvöld í Japan hafa opnað neyðarbirgðir sínar og hyggst flæða 210.000 tonnum af hrísgrjónum inn á markaðinn í fordæmalausri tilraun til að knýja fram verðlækkun.

Smásöluverð á 5 kg poka af hrísgrjónum hefur hækkað úr 2.000 jenum í 3.700 jen á síðasta ári, meðal annars vegna methita og uppskerubrests, hamsturs í kjölfar veðurviðvarana og vandamála með dreifingu.

Landbúnaðarráðherrann Taku Eto tilkynnti um ákvörðunina í morgun.

Stjórnvöld eru ekki vön að stunda inngrip vegna verðhækkana en hafa áður opnað birgðageymslur sínar í kjölfar náttúruhamfara og uppskerubrests. Eto sagði hinar miklu verðhækkanir hins vegar vera að hafa veruleg áhrif á líf fólks og þess vegna hefði verið ákveðið að grípa inn í.

Uppskeran árið 2024 var töluvert meiri en árið á undan, sem munaði 180.000 tonnum, en vangaveltur eru uppi um að bændur og heildsalar liggi enn á nokkru magni til að geta selt þegar verðið hækkar enn frekar.

Neyðarbirgðirnar verða seldar til heildsala og ættu að skila sér í verslanir í apríl. Þá munu stjórnvöld hefja endurkaup innan árs til að koma í veg fyrir verðhrun.

Talið er að neyðarbirgðir Japan af hrísgrjónum nemi allt að milljón tonnum. Þær eru sagðar geymdar á um 300 stöðum um allt land en staðsetningunum er haldið leyndum af öryggisástæðum.

Guardian sagði frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×