Fótbolti

Orri Steinn skoraði þegar Sociedad sparkaði Mid­tjylland úr keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn spakur eftir mark kvöldsins.
Orri Steinn spakur eftir mark kvöldsins. Juanma - UEFA/UEFA via Getty Images

Real Sociedad er komið í 16-liða úrslit Evrópudeildar karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Danmerkurmeisturum Midtjylland. Landsliðsframherjinn Orri Steinn Óskarsson kom inn af bekknum og rak síðasta naglann í kistu Dananna.

Real Sociedad var 2-1 yfir eftir fyrri leik liðanna og þegar leikur hófst var Orri Steinn á bekknum hjá Sociedad á meðan markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson sat á bekknum hjá gestunum.

Þegar Orri steinn kom inn af bekknum var staðan 4-2 og gestirnir manni færri eftir að Dani Silva fékk rautt spjald á 70. mínútu. Íslenski landsliðsframherjinn ákvað hins vegar að nýta mínútur sínar vel og skoraði sitt 7. mark fyrir Sociedad með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arsen Zakharyan. 

Orri Steinn og félagar mæta annað hvort Tottenham Hotspur eða Manchester United í 16-liða úrslitum.

Í Belgíu var leik Anderlecht og Fenerbahçe seinkað vegna láta í áhorfendum. Gestirnir frá Tyrklandi unnu fyrri leikinn 3-0 og því dugði 2-2 jafntefli í kvöld þeim til að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum.

Fenerbahçe mætir Rangers eða Olympiacos í 16-liða úrslitum.

Ajax tók á móti Union SG frá Belgíu og þar er framlenging í gangi eftir að gestirnir voru 2-0 yfir að loknum venjulegum leiktíma. Davy Klaasen fékk rautt spjald eftir hálftíma og heimamenn því manni færri það sem eftir lifir leiks.

Í upphafi framlengingar fengu heimamenn vítaspyrnu sem Kenneth Taylor skoraði úr. Reyndist það á endanum markið sem skildi liðin að. Lokatölur í Amsterdam 1-2 sem þýðir að Ajax vinnur einvígið 3-2. Ajax fær Frankfurt eða Lyon í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×