Skoðun

Magnús Karl sem næsta rektor Há­skóla Ís­lands

Sólveig Ásta Sigurðardóttir og Stefanía Benónísdóttir skrifa

Aukin fjármögnun til vísindarannsókna á Íslandi er nauðsynleg. „Öflugt rannsóknastarf er nauðsynlegur drifkraftur nýliðunar í háskólum með aðkomu nýdoktora og nýrra akademískra starfsmanna, auk þess sem slík uppbygging er forsenda nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífs.“ Þetta skrifar Magnús Karl Magnússon prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands á heimasíðu sinni en hann býður sig fram í rektorskosningum skólans sem fram fara um miðjan mars.

Við sem erum nýdoktorar tökum heilshugar undir orð Magnúsar Karls. Við teljum nauðsynlegt að rektor beiti sér fyrir því að opinberir sjóðir vísinda verði stórlega efldir. Eins og doktorsnemar og nýdoktorar hafa ítrekað bent á hefur niðurskurður á rannsóknarsjóðum síðustu ár valdið vísindasamfélaginu á Íslandi óafturkræfum skaða sem kemur bæði niður á kennslu og rannsóknum við Háskóla Íslands. Slíkir sjóðir gera vísindafólki kleift að vinna að mikilvægum langtímarannsóknum, viðhalda alþjóðlegu samstarfi, stuðla að nýsköpun og tryggja fjölbreytni rannsóknarverkefna í íslensku vísindasamfélagi.

Frekari uppbygging öflugs innlends sjóðakerfis vísinda og rannsókna er lykilatriði. Slíkt net er forsenda þess að hér haldi áfram að vaxa öflugt fræðasamfélag með alþjóðleg tengsl sem getur aflað enn stærri styrkja á erlendum vettvangi. Magnús Karl hefur látið sig þessi mál varða í yfir tuttugu ár.

Enn fremur varðar miklu að styrkja stoðir nýdoktora við Háskóla Íslands. Þessi hópur rannsakenda gegnir bæði veigamiklu hlutverki í rannsóknastarfi og kemur að kennslu og þjálfun á ýmsum stigum háskólanáms.

Með þetta að leiðarljósi styðjum við Magnús Karl Magnússon sem næsta rektor Háskóla Íslands!

Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor við RIKK - Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum

Stefanía Benónísdóttir, nýdoktor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið




Skoðun

Sjá meira


×