Handbolti

Drauma­dagar Elínar Klöru sem fer í at­vinnu­mennsku

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir hefur átt algjöra draumadaga. Hún varð bikarmeistari um síðustu helgi og hefur nú skrifað undir samning við sænska félagið Sävehof.
Elín Klara Þorkelsdóttir hefur átt algjöra draumadaga. Hún varð bikarmeistari um síðustu helgi og hefur nú skrifað undir samning við sænska félagið Sävehof. vísir/Hulda Margrét

Elín Klara Þorkelsdóttir, landsliðskona í handbolta og ein helsta stjarna Olís-deildarinnar, hefur skrifað undir samning til þriggja ára við sænska félagið IK Sävehof.

Elín Klara mun þó klára tímabilið með Haukum en heldur svo til Svíþjóðar í sumar.

Hún kveður Hauka sem bikarmeistari, eftir að hafa unnið titilinn um helgina, og bætir mögulega við þann titil áður en leiktíðinni lýkur. Elín Klara hefur í vetur skorað 129 mörk og átt 78 stoðsendingar fyrir Haukaliðið, í 16 leikjum, og skarað fram úr í báðum tölfræðiþáttum í allri deildinni sé horft til meðaltals.

Hún er annar Íslendingurinn í þessari viku sem Sävehof tilkynnir um því Birgir Steinn Jónsson fer frá Aftureldingu til félagsins í sumar.

„Ég er hæstánægð með þá ákvörðun að fara til félags eins og Sävehof. Þetta er sterkt lið og umhverfið hjá félaginu er virkilega gott. Þetta er stórt og gott skref fyrir mig til þess að verða enn betri leikmaður og ég hlakka til að verða hluti af Sävehof,“ segir Elín Klara sem þar með verður atvinnumaður líkt og Orri Freyr bróðir hennar sem spilar í Portúgal.

Elín Klara lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Hauka í febrúar 2020, þá 15 ára að aldri. Tímabilið eftir varð hún stór hluti af liðinu og síðan var ekki aftur snúið og hefur Elín Klara verið valin besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö tímabil. Uppgangur hennar hefur verið samofin uppgangi Haukaliðsins sem um síðustu helgi vann bikarmeistaratitilinn í fyrsta skiptið síðan 2007.

Þá er Elín Klara mikilvægur hlekkur í íslenska landsliðinu og fór á sitt fyrsta stórmót í desember síðastliðnum, þegar EM var haldið. Hún hefði farið á HM ári áður en missti af mótinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×