Erlent

Var út­skrifaður og lifði með gervihjarta í yfir 100 daga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Notast er við segla til að viðhalda blóðflæði um hjartað og dæla því áfram um líkamann.
Notast er við segla til að viðhalda blóðflæði um hjartað og dæla því áfram um líkamann. BiVACOR

Ástralskur maður með alvarlega hjartabilun var útskrifaður af spítala og lifði í meira en 100 daga með gervihjarta, áður en hann gekkst undir hjartaígræðslu.

BiVACOR er uppfinning Dr. Daniel Timms og kemur algjörlega í staðinn fyrir venjulegt hjarta. Notast er við segla til að viðhalda blóðflæði um gervilíffærið.

Gervihjartað er enn í þróun og á rannsóknarstigi en er hugsað fyrir þá sem glíma við alvarlega hjartabilun í kjölfar hjartaáfalls, kransæðasjúkdóms eða sykursýki týpu 1, svo eitthvað sé nefnt. 

Lækningatækið var þróað með fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum í Ástralíu, sem segja 23 milljónir manna þjást af hjartabilun á hverju ári, á meðan aðeins 6.000 gangast undir hjartaígræðslu.

Gervihjartað var grætt í fimm einstaklinga í Bandaríkjunum í fyrra en lengsti tíminn sem leið áður en þeir fengu gjafahjarta var 27 dagar. 

Ástralski maðurinn sem var með gervihjartað í yfir 100 daga var hins vegar útskrifaður og gekk með varahlutinn í mánuð utan spítalans áður en hann fékk gjafahjarta. Hann er á fimmtugsaldri.

Vonir standa til að einhvern tímann í framtíðinni muni gervihjartað koma í staðinn fyrir gjafahjörtu.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×