Körfubolti

Byrjaði í fyrsta sinn í þrjú ár svo ein­hverfur sonur hans gæti séð hann spila

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joe Ingles á þrjú börn með eiginkonu sinni, Reane. Jacob, sonur þeirra, er einhverfur og Ingles hefur látið til sín taka í vitundarvakningu um einhverfu.
Joe Ingles á þrjú börn með eiginkonu sinni, Reane. Jacob, sonur þeirra, er einhverfur og Ingles hefur látið til sín taka í vitundarvakningu um einhverfu. ap/Rob Gray

Ástralski körfuboltamaðurinn Joe Ingles byrjaði sinn fyrsta leik í NBA í þrjú ár þegar Minnesota Timberwolves mætti New Orleans Pelicans í nótt. Fyrir því var falleg ástæða.

Ingles á einhverfan son, Jacob, sem fór á sinn fyrsta körfuboltaleik fyrr í þessari viku. Eini ókosturinn var að Ingles spilaði ekkert.

Það breyttist í nótt en Chris Finch, þjálfari Minnesota, lét Ingles byrja leikinn til að sonur hans gæti séð hann spila.

„Þetta er tilfinningaþrungið. Stundum verðurðu að gera það mannlega,“ sagði Finch en hugmyndin var viðruð við hann í gær.

„Ég hugsaði ef við værum að fara að gera þetta væri eins gott að gera þetta með stæl. Strákarnir studdu þetta og þetta gaf okkur kraft þegar við þurftum á að halda. Það er ekki oft sem þú getur gert svona lagað en við erum ánægðir að hafa gert það.“

Ingles spilaði í sex mínútur í öruggum sigri Úlfanna, 134-93. Julius Randle var stigahæstur í liði Minnesota með tuttugu stig en sjö leikmenn liðsins skoruðu ellefu stig eða meira í leiknum.

Fyrir leikinn í nótt hafði Ingles ekki byrjað leik í NBA síðan 30. janúar 2022. Hann sleit þá krossband í hné í leik með Utah Jazz. Ingles samdi við Minnesota síðasta sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×