Skoðun

Tesluvandinn

Alexandra Briem skrifar

Nú hefur það breyst á síðustu mánuðum og árum að Tesla er ekki lengur bara eitthvað bílafyrirtæki. Stærsti eigandi þess og helsti talsmaður, Elon Musk, hefur stigið inn á svið stjórnmála og mannréttindamála með svo afgerandi hætti að það er ekki lengur hægt að líta á fyrirtækin sem hann byggir sín auðæfi á sem bara venjuleg fyrirtæki á markaði. Hann hefur beitt sér leynt og ljóst gegn mannréttindum, hefur nýtt fyrirtæki sín og auð til þess að hafa áhrif á kosningar. Hann hefur þannig dregið þau fyrirtæki sem hann er í forsvari fyrir, og þar með hagsmuni hluthafa, starfsfólks og viðskiptavina, inn á annað svið. Svið þar sem mótmæli eru eðlileg viðbrögð gagnvart öfgakenndri framkomu.

Musk er hvergi kjörinn fulltrúi, hann beitir sér í krafti auðæfa sinna og samfélagslegra áhrifa. Eina leiðin fyrir fólk sem óttast framgöngu hans til þess að hafa áhrif á hann, er með því að vekja athygli á þeirri framgöngu á þeim stöðum sem undirbyggja og auka á auð hans.

Það er mjög mikilvægt að það sé skýrt samt að vandamálið er ekki þau sem keyra teslu, ekki þau sem vinna fyrir fyrirtækið og ekki þau sem hafa tekið upp umboðssölu fyrir Teslu, þó ég myndi auðvitað beina því til þess hóps að hugsa hvort að fyrirtækið sem það gekk á sínum tíma í viðskiptasamband við sé ennþá fyrirtæki sem það vill eiga í slíku sambandi við. Það er þeirra ákvörðun, ekki mín. En það er eðlilegt að benda á það að aðstæður hafa breyst á síðustu misserum. Þetta er ekki lengur bara eitthvað fyrirtæki.

En svarið við því er auðvitað ekki skemmdarverk, eða aðrar aðfarir að persónum eða öryggi þeirra sem keyra teslur eða vinna fyrir fyrirtækið. Ég fordæmi slíkt.

Það er fyrir það fyrsta ranglátt og þar að auki ekki rétta leiðin til að koma okkar áhyggjum okkar af framgöngu Elon Musk á framfæri. Þau sem eiga teslur eru ekki minn óvinur. Það er fólk í minni fjölskyldu sem á teslur, það er ekki punkturinn í þessu. Punkturinn er að það hverju Elon Musk beitir sér fyrir í heiminum hefur breyst með svo afgerandi hætti að það kallar á viðbrögð.

Ég held nefnilega ekki að neinn þurfi að velta því fyrir sér af hverju frjálslynt, lýðræðis þenkjandi fólk víðsvegar um heim mótmælir nú við sölustaði, verksmiðjur og umboðsaðila Teslu um allan heim. Það er ekki vegna þess að við séum á móti rafbílavæðingu, eða séum andsnúin arfleifð Nikola Tesla eða eitthvað þaðan af langsóttara. Ég leyfi mér jafnvel að efast um að nokkur manneskja gæti í alvörunni haldið að þessi mótmæli snúist um eitthvað slíkt.

Musk hefur, fyrir opnum tjöldum og með miklu offorsi, beitt sér gegn mannréttindum, þá sérstaklega mannréttindum hinsegin fólks og trans fólks, bæði með sinni orðræðu, með því hvernig hann beitir sínum fjármunum og því hvernig hann stillir af algorithma á samfélagsmiðlinum sínum, X (áður Twitter), til þess að hafa áhrif á þróun stjórnmála, í Bandaríkjunum, í Evrópu og víðar. Hann er orðinn sérstakur erindreki forseta Bandaríkjanna í starfshópi sem á að nafninu til að leita uppi sóun, en virðist í sínum athöfnum frekar ráðast gegn annars vegar verkefnum sem hann er pólitískt andsnúinn. Hann hefur líka gengið fram úr eðlilegum valdheimildum slíkra hópa. Þeir hafa gengið mjög hart fram í að sækja viðkvæmar persónuupplýsingar bandarískra skattgreiðenda, hafa haldið fram miklum rangfærslum um starfsemi þróunaraðstoðar og fleira.

Ég ætla ekki hér að útlista allar þær ástæður sem liggja að baki, ég gef mér það að lesendur hér viti á hvaða vegferð Musk hefur verið.

Andstaða mín við fyrirtækið byggist á því að Elon Musk er núna orðinn andstæðingur lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Þar að auki stendur framganga hans mér nærri þar sem ég er sjálf trans, og hann hefur gengið mjög hart fram í að afneita tilvist trans fólks, segir að við séum hugarvírus og séum ekki til, og beitir sér almennt gegn okkar réttindum með öllum ráðum. Það er vandamál að Musk er svo yfirgengilega slæmur í framgöngu sinni að það kallar á viðbrögð frá fleirum en þeim sem nálgast þetta eins og ég, og ég vil líka reyna að nýta mín áhrif til þess að hvetja fólk til þess að fara rétt að.

Ég hvet þau sem eru reið við Elon Musk til þess að tjá sína reiði uppbyggilega og málefnalega, eins og við teljum okkur hafa gert sem vorum á mótmælunum um helgina. Þau sem tjá reiði sína með skemmdarverkum, eða með því að láta eigendum tesla bíla, eða umboða, eða sölustaða, líða eins og þau séu ekki örugg, eru á villigötum. Þetta tók ég skýrt fram í minni ræðu á mótmælunum, og í þeim viðtölum sem ég hef farið í um málið síðan.

En ég hvet líka þau sem eiga í viðskiptasambandi við fyrirtæki Elon Musk, hvort sem um er að ræða Tesla, X, SpaceX eða annað, til að skoða hvort það sé viðskiptasamband sem þau vilja eiga í áfram, amk. þegar næsta stund til að velja sér vöru og þjónustu á þeim sviðum rennur upp. (ekki að ég telji að mörg okkar séu reglulega að versla sér eldflaugar, reyndar)

Höfundur er trans kona og andstæðingur fasisma.




Skoðun

Sjá meira


×