„Þetta er stærsta viðskiptaaðgerð okkar tíma,“ er haft eftir Kelly Ann Shaw, viðskiptalögfræðingi of fyrrverandi viðskiptaráðgjafa í ríkisstjórn Trump, á vef Reuters, en Shaw fjallaði um ákvarðanir Trump á viðburði í Brookings Institution á fimmtudag.
Þar sagði hún að hún ætti von á því að tollarnir myndu þróast yfir tíma og hvert ríki myndi sækjast eftir því að semja um lægri tolla.
„En þetta er risamál,“ sagði hún og að þessi ákvörðun hefði áhrif á öll viðskipti heimsins.
Tollarnir fela í sér að minnst tíu prósenta skattur verður lagður á allar vörur sem fluttar verða inn til Bandaríkjanna.
Tollarnir hafa verið kynntir sem „gagnkvæmir tollar“ vestanhafs og áttu þeir að hafa tekið mið af því hvaða tollum er beitt gegn vörum frá Bandaríkjunum. Þess í stað taka þeir þó mið af viðskiptahalla Bandaríkjanna við tiltekin ríki.
Áhrif á kauphallir um allan heim
Tilkynning Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um tollahækkanirnar á miðvikudag hafði víðtæk áhrif á viðskipti um allan heim og verðbréf margra fyrirtækja hrundu í verði í gær og fyrradag, þar á meðal verð á olíu og ýmsum öðrum vörum, á meðan fjárfestar fluttu peningana sína margir í ríkisskuldabréf.
Þau lönd sem verða fyrst fyrir 10 prósent tolli eru til dæmis Ástralía, Bretland, Kolumbía, Argentína, Egyptaland og Sádi Arabíla. Í frétt Reuters segir að samkvæmt tilkynningu frá Tolla- og landamæraeftirliti Bandaríkjanna hafi innflutningsaðilar sem flytji vörur sjóleiðis fengið að vita að enginn greiðslufrestur yrði veittur vegna vara sem hafi verið komnar á sjó á miðnætti en að ekki verði lagður tollur á vörur sem þegar hafi verið lagðar af stað og verði komnar til Bandaríkjanna fyrir 27. maí.
Eins og fram kom í tilkynningu Trump munu tollarnir svo hækka eftir viku og munu til dæmis verða tuttugu prósent á allar vörur frá Evrópusambandsríkjum, 34 prósent á vörur frá Kína sem þýðir að vörur frá Kína muni sæta 54 prósent álagninu í heild. Víetnam sömuleiðis mun sæta um 46 prósenta álagningu en fram kemur í frétt Reuters að í gær hafi þau samþykkt að ræða samkomulag við Trump.
Kanada og Mexíkó sæta þegar um 25 prósenta álagningu á allar vörur sem fluttar eru inn. Donald Trump tilkynnti um meiri álagningu á löndin stuttu eftir að hann tók við embætti í janúar og vísaði til fentanyl krísunnar sem hefur geisað í landinu um árabil og krafðist þess að landamæraeftirlit yrði aukið við Bandaríkin.