Erlent

Sovéskt geim­far hrapaði til jarðar eftir mis­heppnað ferða­lag til Venus

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Venera-4 geimfar áþekkt því sem hrapaði til jarðar í morgun.
Venera-4 geimfar áþekkt því sem hrapaði til jarðar í morgun. Wikimedia

Sovéskt geimfar sem skotið var í loft 1972 og átti að fara í sporbaug um Venus er talið hafa hrapa til jarðar snemma í morgun.

Evrópska geimvísindastofnunin hefur verið að fylgjast með geimfarinu Kosmos 482 og segir það hafa sést síðast á ratsjám þeirra yfir Þýskalandi. Gert er ráð fyrir því að Kosmos hafi þegar hrapað til jarðar en ekkert tjón hefur verið tilkynnt vegna þessa.

Kosmos 482 er, samkvæmt umfjöllun NBC, hluti af svokölluðu Venera-verkefni sovésku geimstofnunarinnar. Litlum geimförum var skotið í loft og þeim ætlað að rannsaka reikistjörnuna Venus. Tókst að lenda tíu þessara geimfara á yfirborði Venus en eldflaugin sem bar Kosmos 482 bilaði. Efri hluti hennar festist á sporbaugi um jörðina.

Síðastliðin 53 árin hefur geimfarið flogið umhverfis jörðina í minni og minni sporbaug þar til hún fór það nálægt jörðinni að hún hrapaði. Kosmos er harðgert geimfar og smíðað til þess að geta haft lendingu á Venus af og því er ólíklegt að það hafi fuðrað upp í lofthjúpi jarðarinnar.

Fram kemur á bloggsíðu Evrópsku geimstofnunarinnar að gervitungl og eldflaugahlutar hrapi til jarðar nær daglega og að tjón af þeirra völdum sé mjög sjaldgæft. Þar segir jafnframt að hættan á því að hrap gervitungls valdi tjóni á fólki sé mjög lítil. Líkurnar nemi um einum á móti hundrað milljörðum árlega. Til samanburðar er maður um 65 þúsund sinnum líklegri til að verða fyrir eldingu á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×