Erlent

Táningsstúlkan sem lést var að teyma ís­lenskan hest

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hjá Stald Gavnholt eru fyrst og fremst íslenskir hestar. Myndin er úr safni.
Hjá Stald Gavnholt eru fyrst og fremst íslenskir hestar. Myndin er úr safni. Getty

Dönsk táningsstúlka sem lést í hestaslysi skammt frá Silkiborg í Danmörku í fyrradag var að teyma íslenskan hest þegar slysið varð.

„Við erum miður okkar vegna þessa hræðilega slyss sem átti sér stað á jörðinni okkar í gær. Hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum Silju,“ segir í færslu á samfélagsmiðlum Stald Gavnholt, hrossaræktarbúinu þar sem slysið átti sér stað.

„Allir hjá Stald Gavnholt syrgja þessa ungu yndislegu stúlku sem unni hestum og fyllti þá sem umgengust hana af ánægju. Við erum þakklát fyrir hlýhug og stuðninginn frá hestasamfélaginu.“

Hjá Stald Gavnholt eru fyrst og fremst íslenskir hestar. Agnar Snorri Stefánsson, hrossabóndi hjá Stald Gavnholt, staðfestir við fréttastofu að stúlkan, sem var sextán ára gömul, hafi verið með íslenskum hesti þegar slysið varð.

Efnt hefur verið til fjáröflunar fyrir fjölskyldu stúlkunnar. En fyrirhugað er að fjármagninu verði til að mynda varið í jarðarför og minningarstund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×