Erlent

64 prósent myndu þiggja gjaldfrjáls þyngdarstjórnunarlyf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
NPA segja að vaxandi eftirspurn kunni að leiða til þess að forgangsraða þarf þeim sem fá lyfin.
NPA segja að vaxandi eftirspurn kunni að leiða til þess að forgangsraða þarf þeim sem fá lyfin. Getty

Um það bil 64 prósent Breta á aldrinum 25 til 34 ára segjast myndu vilja fara á þyngdarstjórnunarlyf ef þau væru greidd af sjúkratryggingum. Hlutfallið er 41 prósent ef horft er á alla aldurshópa.

Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Samtaka lyfjarverslana á Bretlandseyjum (NPA), sem hafa áhyggur af því að eftirspurnin eftir þyngdarstjórnunarlyfjum á borð við Wegovy og Mounjaro sé að verða umfram framboð.

Um það bil 1,6 milljón pakkar af lyfjunum seldust í aprílmánuði, sem er talið samsvara fjölda notenda.

„Sívaxandi eftirspurn eftir þyngdarstjórnunarlyfjum á það á hættu að fara langt umfram það sem er hægt að afhenda,“ hefur Guardian eftir NPA. Mögulega þurfi að fara að skammta lyfin og forgangsraða þeim sem glíma við raunverulega og hættulega offitu.

Samkvæmt skoðanakönnuninni hafa yfir 20 prósent Breta falast eftir því að komast á lyfin á síðasta ári en hlutfallið er 35 prósent meðal 18 til 34 ára. NPA, sem um það bil 6.000 lyfjaverslanir eiga aðild að, vara við því að umframeftirspurn muni verða til þess að fólk leitast við að kaupa lyfin á netinu eða eftir öðrum leiðum.

Hér má finna umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×