Erlent

„Fordæmalausar hörmungar“ í Frakk­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir slökkviliðsmanna berjast við eldana.
Þúsundir slökkviliðsmanna berjast við eldana. Getty/Almannavarnir Frakklands

Eldri kona er látin og að minnsta kosti eins er saknað í gróðureldum sem nú geisa í suðurhluta Frakklands. Forsætisráðherrann François Bayrou heimsótti Aude í gær, þar sem eldarnir hafa brunnið á svæði sem er stærra en París.

Bayrou kallaði eldana „fordæmalausar hörmungar“ en um er að ræða umfangsmestu gróðureldana í Frakklandi frá árinu 1949. 

Eldarnir brutust út á þriðjudag, nærri þorpinu La Ribaute. Þeir hafa farið yfir 15.000 hektara, eða 150 ferkílómetra, og þrettán eru sagðir hafa slasast. 

Þau þorp sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum eru Lagrasse, Fabrezan, Tournissan, Coustouge og Saint-Laurent-de-la-Cabrerisse. Þeir sem hafa flúið eldana hafa verið hvattir til að halda sig fjarri heimilum sínum og sautján tímabundnar dvalarmiðstöðvar verið opnaðar.

Að minnsta kosti 25 heimili er sögð hafa eyðilagst og þá eru 2.500 heimili án rafmagns.

Barist er við eldana úr lofti og á landi en aðstæður eru sagðar erfiðar; þurrkur er á svæðinu, hiti og sterkir vindar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×