Skoðun

Gagns­lausa fólkið

Þröstur Friðfinnsson skrifar

Á liðnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um sameiningar sveitarfélaga og það hagræði sem sameiningar gætu skapað. Alþingi samþykkti þannig fyrir nokkrum árum að stefnt skyldi að því að öll sveitarfélög hefðu með tíð og tíma yfir 1000 íbúa. Ráðherrar hafa leitt þessa umræðu, embættismenn unnið að baki og sumt sveitarstjórnarfólk og óbreyttir tekið undir umræðuna sem því miður hefur mikið byggst á innhaldslausum klisjum og fordómum. Nú síðast ritaði ágætur maður grein af miklum áhuga en mögulega ekki eins mikilli þekkingu á málefninu og var síðan gripinn beint í útvarpsviðtal.

Aðalatriðið þar var hve mikið væri hægt að spara með sameiningum sveitarfélaga. Telur höfundur greinarinnar að með því að leggja niður störf 27 sveitarstjóra og sama fjölda sveitarstjórna mætti spara um 2 milljarða á ári. Mögulega er þó tekinn þar með einhver rekstrarkostnaður annar við stjórnsýsluna.

Til þessa hefur þó gengið afar illa að sýna fram á sparnað eftir sameiningar sveitarfélaga á Íslandi. Nýsett lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hafa það m.a.s. sérstaklega að markmiði að auka fjárframlög sjóðsins til sameinaðra landmikilla og fjölkjarna sveitarfélaga. Það er mjög sterk vísbending um að sameiningar hafi ekki skilað því hagræði sem ætlað var.

Það er auðvitað áhugaverð nálgun að þessi hópur stjórnenda minni sveitarfélaga sem telur vel á annað hundrað manns, sé með öllu óþarfur, eingöngu samfélagslegur kostnaður, eða með öðrum orðum „gagnslaust fólk“. Nú hef ég fengið að tilheyra þessum hópi fólks um 11 ára skeið og haft af bæði gagn og gaman. Þar sem ég er frekar sjálfhverfur og Þingeyingur í ofanálag, freistast ég líka til að halda að ég hafi, a.m.k. sum árin, gert eitthvað til gagns fyrir samfélagið.

Í ljósi umræðunnar er rétt að fara í örfáum orðum yfir störf og hlutverk sveitarstjórna og sveitarstjóra. Auðvitað erum við sveitarstjórar svo sem alkunna er, vel haldnir í launum, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að svo sé ekki um kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum minni sveitarfélaga.

Rétt er að nefna fyrst, að þessi störf eru einstaklega gefandi, enda snúast þau alfarið um að reyna að bæta samfélagið, þróa það áfram íbúunum til hagsbóta. Þau snúast um að veita þjónustu, rekstur stofnana svo sem leikskóla, skóla, hjúkrunarheimila, íþróttamannvirkja, sundlauga, bókasafna, skíðasvæða, tjaldsvæða, leikvalla, rekstur félagsþjónustu og svo mætti lengi telja. Einnig þarf að skipuleggja allt frá einni lóð til heilla sveitarfélaga, jafnvel stærri landsvæði. Til að vel takist til þarf þetta nokkra hugsun og yfirlegu, þannig að samfélög þróist með góðum og hagkvæmum hætti. Það þarf líka að hafa þor til að taka ákvarðanir, stundum umdeildar. Þakkir geta verið af skornum skammti, gagnrýni á köflum óvægin.

Þessi störf snúast um að tryggja grunnþarfir samfélaga, s.s. vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu, sjá um hirðingu sorps og endurvinnsluefna o.s.frv. Leggja götur fyrir umferð og stíga fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi. Sinna öryggi t.d. með rekstri slökkviliða. Tryggja að allt gangi sinn gang, sinna snjómokstri vel og viðhaldi eigna svo dæmi sé tekið. Sinna uppbyggingu þar sem þarf, helst að sjá þörfina fyrir þannig að ekki komi rof í þjónustu. Sinna menningar- og umhverfismálum. Gera fjárhagsáætlanir og framkvæmdaáætlanir, sinna stefnumótun fyrir sveitarfélagið í heild og einstaka hluta þess eða málaflokka. Framfylga þeim áætlunum og stefnum. Sýna ávallt fyrirhyggju í rekstri þannig að ekki leiði í ógöngur fjárhagslega. Passa upp á umhverfi atvinnulífs og efla verðmætasköpun. Raunar mætti halda svona upptalningu áfram lengi dags, svo fjölbreytt eru verkefnin sem þetta fólk er að reyna að sinna í sínu gagnsleysi.

Það er nefnilega svo að ekkert af þessu fólki skortir verkefni dags daglega. Ofan á það sem að framan er nefnt koma stöðugt frá ráðuneytum óskir og fyrirskipanir um ný og ný verkefni, gerð margvíslegra áætlana og söfnun upplýsinga. Það þarf að sinna ýmiskonar hagsmunagæslu fyrir samfélögin og íbúa þeirra, sinna upplýsingagjöf bæði til íbúa og annarra. Allt þarf síðan að standast lög og vera unnið á grunni stjórnsýslulaga, skipulagslaga, upplýsingalaga, laga um persónuvernd og sérlaga um málaflokka af ýmsu tagi. Ef eitthvað brestur að þessu leyti getur afgreiðsla mála og ákvarðanir fallið og verið ógilt fyrir dómstólum.

Stóri misskilningurinn er, að þessi verkefni sem snúa beint að hverri byggð hverfa ekki við sameiningar. Annað hvort þarf að stækka stjórnkerfi sameinaðra sveitarfélaga verulega til að sinna þeim vel áfram, eða eitthvað lætur undan þegar fram í sækir. Það fer því miður of oft þannig að þegar fjarlægð stjórnsýslunnar verður meiri en æskilegt er, vantar tíma og mögulega áhuga til að sinna öllum hlutum sveitarfélagsins með sama hætti og áður var gert og þyrfti að gera. Þetta á ekki bara við um fámennið, reglulega heyrist af óánægju íbúa jaðarbyggða Reykjavíkur á Kjalarnesi og í Grafarvogi. Þannig virðist stærð ekki endilega tryggja góðan árangur eða ánægju íbúa fjær miðlægri stjórnsýslu.

Við fáum reglulega fréttir af því að þjónusta sé skert, skólar eru sameinaðir, deildum lokað, sundlaugum lokað eða fá ekki að þróast áfram, vatnsból spillast vegna viðhaldsleysis, fasteignir grotna niður, atvinnulíf á í vandræðum. Ástæður geta verið fjölbreyttar og þetta á ekki bara við sameinuð sveitarfélög. En eitt er þó alveg ljóst, að sameiningar sveitarfélaga búa ekki til peninga sem slíkar, né heldur leysa þær vandamál sem komin eru upp. Þjónusta kostar ef hana á að veita. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið.

Það er dýrt að reka fámenn samfélög. Þau geta þó og hafa í gegnum tíðina skilað miklu í verðmætasköpun til þjóðfélagsins og eiga ótvírætt sinn tilverurétt. Það er skjalfest opinber stefna að íbúar eigi að fá sem sambærilegasta þjónustu, hvar sem þeir búa. Auðvitað er fólk sem velur sér búsetu í dreifbýli meðvitað um að það gengur ekki að allri þjónustu í næsta nágrenni, en það er grundvallaratriði að grunnþjónusta sé þó tryggð og eins aðgengileg og kostur er. Í þessu samhengi er rétt að minna á að Ísland allt er að íbúafjölda miðað við Evrópu ekki nema eins og hálfur Grýtubakkahreppur á Íslandi! Stærðarhroki fer Íslendingum því afar illa.

Lokaspurningin verður alltaf, viljum við halda landinu í byggð, alla vega að sem mestu leyti? Við sem svörum því játandi vitum að í þeirri stefnu eru fólgin margvísleg verðmæti, bæði bein fjárhagsleg verðmæti, t.d. með nýtingu auðlinda til lands og sjávar, en einnig menningarleg og samfélagsleg verðmæti. Til þess þarf að reka dýra þjónustu, byggja dýra innviði fyrir fátt fólk á stórum landsvæðum. Samt er það svo að uppspretta þjóðartekna er hlutfallslega mikil í þessum samfélögum og trúlega því meiri sem þau fá meiru ráðið um sín mál sjálf. Sumstaðar er gagnlegt að sameina sveitarfélög, þá skynja íbúar það og stuðla að þeirri þróun.

Svo má geta þess í lokin að það fer hreint ótrúlegur tími í að sinna þessum gagnslausu störfum. Jafnvel svo mikill að mín háu sveitarstjóralaun geta orðið að fremur hógværu tímakaupi. En það kann að segja meira um mig en þetta skemmtilega starf. Starf sem hefur hvorki upphaf né endi í sjálfu sér, heldur spannar flestar víddir mannlegs samfélags. Og eins og í upphafi var sagt, snýst um að reyna jafnan að gera samfélagið betra og betra fyrir íbúana. Það er afar gefandi vinna, jafnvel þó ýmsir telji hana lítils virði.

Höfundur er sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.


Höfundur hefur skrifað margar greinar um málefni sveitarfélaga og þjónustu þeirrra, hér eru t.d. hlekkir á tvær fyrir þá sem kunna að villja skoða málið frekar:

https://www.visir.is/g/2019191019636/rett-og-rangt-um-thjonustu

https://www.visir.is/g/2019960570d/hag-raeding-eda-thjonusta-




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×