Fótbolti

PSG kom til baka og vann Ofurbikarinn í vítakeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Goncalo Ramos fagnar eftir að hafa jafnað í 2-2.
Goncalo Ramos fagnar eftir að hafa jafnað í 2-2. epa/Alessio Marini

Þrátt fyrir að vera 0-2 undir gegn Tottenham þegar fimm mínútur voru til leiksloka vann Paris Saint-Germain Ofurbikar Evrópu í kvöld. PSG jafnaði með tveimur mörkum og hafði svo betur í vítaspyrnukeppni í þessum árlega leik sigurvegara Meistara- og Evrópudeildarinnar. Leikið var á Stadio Friuli, heimavelli Udinese á Ítalíu.

Micky van de Ven kom Tottenham yfir á 39. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Joaos Palhinha sem Lucas Chevalier, nýr markvörður PSG, varði. Á 48. mínútu skoraði félagi Van de Vens í vörn Spurs, Cristian Romero, annað mark liðsins en Chevalier hefði sennilega átt að gera betur í því tilfelli.

Eftir þetta sótti Parísarliðið í sig veðrið en það var ekki fyrr en á 85. mínútu sem það skoraði. Lee Kang-In minnkaði þá muninn í 1-2 með góðu skoti rétt fyrir utan vítateig.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði svo annar varamaður, Goncalo Ramos, metin í 2-2 þegar hann skallaði fyrirgjöf Ousmanes Dembélé í netið. Því réðust úrslitin í vítakeppni.

Þar skoraði PSG úr fjórum spyrnum en Tottenham úr þremur. Chevalier varði frá Van de Ven og Mathys Tel skaut framhjá. Nuno Mendes tryggði PSG svo sigurinn með því að skora úr síðustu spyrnu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×