Erlent

Gervigreindin býr til tvö ný sýkla­lyf gegn ónæmum bakteríum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sérfræðingur segir þá spurningu blasa við hvort einhver vilji framleiða eitthvað og selja sem menn vilja helst ekki nota.
Sérfræðingur segir þá spurningu blasa við hvort einhver vilji framleiða eitthvað og selja sem menn vilja helst ekki nota. Getty

Vísindamenn við Massachusetts Institute of Technology (MIT) hafa beitt gervigreind til að uppgötva tvö möguleg sýklalyf sem vinna á fjölónæmum stafýlókokkum og lekanda sýkingum.

Lyfin unnu bug á báðum sýkingum á tilraunastofu og í dýrum en framundan eru áralangar rannsóknir og prófanir áður en mögulega verður hægt að ávísa lyfjunum.

Teymið á bakvið lyfin segist vongott um að gervigreindin muni setja af stað „aðra gullöld“ sýklalyfjauppgötvana.

Ofnotkun sýklalyfja hefur leitt til ónæmis, sem veldur yfir milljón dauðsföllum á ári hverju. Vísindamenn hafa um nokkurt skeið freistað þess að uppgötva lyf með því að láta gervigreind yfirfara þúsundir þekktra efnsamsetninga í von um að finna ný möguleg sýklalyf.

Teymið við MIT byrjaði hins vegar á því að þjálfa gervigreindina til að þekkja áhrif efna á bakteríur og létu hana síðan hanna ný lyf. Vænlegustu kandídatarnir voru prófaðir á bakteríum í tilraunastofu og á músum og tvö möguleg lyf litu dagsins ljós.

BBC, sem fjallar ítarlega um málið, ræddi meðal annars við Chris Dowson, prófessor við University of Warwick, sem sagði rannsóknirnar áhugaverðar og gervigreindina mikilvægt tæki í leitinni að nýjum sýklalyfjum.

Hann bendir hins vegar einnig á að ákveðið vandamál muni mögulega hamla þróun nýrra lyfja; menn muni vilja nota þau í afar takmörkuðum mæli til að koma í veg fyrir að bakteríur myndi ónæmi og það sé erfitt fyrir framleiðendur að græða á einhverju sem menn vilja helst ekki nota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×