Fótbolti

Eigin­kona Gunn­hildar Yrsu kvaddi með tárin í augunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erin McLeod er hér með Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur en Ali Riley sér um regnhlífina fyrir stjörnuparið.
Erin McLeod er hér með Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur en Ali Riley sér um regnhlífina fyrir stjörnuparið. Getty/ Jeremy Reper

Kanadíski markvörðurinn Erin McLeod hefur þurft að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla sinna. Hún lék um tíma með Stjörnunni en endaði feril sinn með heimaliði sínu í Hailifax Tides.

McLeod er goðsögn í kanadískum fótbolta og vann meðal annars Ólympíugull í Tókýó 2020 og Ólympíubrons í London 2012. Hún lék alls 119 landsleiki fyrir Kanada frá 2002 til 2021.

McLeod er líka þekkt hér á landi fyrir að verða eiginkona íslensku landsliðsgoðsagnarinnar Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

Því miður voru það meiðsli sem komu í veg fyrir að McLeod gæti kvatt fótboltann á sínum forsendum.

Hún kvaddi með tárin í augunum þegar hún lét vita af ákvörðun sinni í samtali við kanadísku sjónvarpsstöðina CBC Sports.

„Það sem hefur verið það fallegasta við þetta er að geta komið aftur heim,“ sagði Erin McLeod. Hún skipti í Halifax Tides úr Stjörnunni þar sem Gunnhildur Yrsa fékk áður tækifæri til að kveðja boltann með sínu uppeldisfélagi.

McLeod hefur haft mikil áhrif á marga enda skemmtileg týpa og markvörður í fremstu röð í langan tíma.

„Að fá fólk til mín, sem er jafnvel á sama aldri og ég en yngri líka, og þau segja mér að þau hafi byrjað að æfa mark vegna mín. Það skiptir mig miklu máli,“ sagði McLeod og barðist við tárin.

„Ég hef líka fengið mikla ást úr hinsegin samfélaginu og það þótt að ég hafi ekki vitað það sjálf að ég væri samkynhneigð þegar ég var með hanakambinn minn,“ sagði McLeod.

„Ég veit að ég hjálpaði mörgum til að líða betur í eigin skinni en þetta hefur verið bardagi. Ég held samt að flestir glími við það að vera óyggjandi þau sjálf stóran hluta lífsins,“ sagði McLeod sem hefur haft góð áhrif á löngum og glæsilegum ferli.

„Að vita það að fólk hafi horft á mig reyna að gera mitt besta á hverjum degi en um leið sjá mig reyna að vera besta útgáfan af mér sjálfri. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ sagði McLeod. Það má sjá brot úr viðtalinu með því að smella hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×