Neytendur

Þetta eru réttindi þeirra sem eiga bókað með Play

Bjarki Sigurðsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Einar

Það skiptir máli fyrir þá sem hyggjast fá endurgreitt frá Play vegna flugferðar sem ekki var farið í eftir gjaldþrot félagsins, hvernig greitt var fyrir ferðina. Gjafabréf enda sem kröfur í þrotabú. 

Play mun seinna í dag óska eftir gjaldþrotaskiptum og skila flugrekstrarleyfi sínu til Samgöngustofu. Öllum ferðum félagsins hefur verið aflýst og fjögur hundruð manns missa vinnuna. Þónokkur fjöldi fólks er með bókaðar flugferðir hjá félaginu á næstu vikum og mánuðum. 

Fylgst er með nýjustu tíðindum af gjaldþrotinu í vaktinni sem má finna í fréttinni hér fyrir neðan. 

Hafa samband við bankann

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það skipta máli hvernig greitt var fyrir ferðina, ef fólk ætlar að fá endurgreitt. 

„Hafi fólk borgað með greiðslukorti er nærtækast að hafa samband við bankann sem gefur kortið út og óska eftir því að fá færsluna bakfærða. Svokallað „chargeback“. Hafi fólk greitt með gjafabréfi, með millifærslu eða peningum, er yfirleitt ekki annað hægt að gera en að lýsa kröfu hendur félaginu eða þrotabúinu þegar þar að kemur,“ segir Breki. 


Upplýsingar af vef Samgöngustofu um réttindi farþega við gjaldþrot flugfélaga.

Réttarstaða flugfarþega í fjárhagserfiðleikum flugrekenda og ferðaskrifstofa er misjöfn eftir því hvaða þjónusta hefur verið keypt, af hverjum og hvar.

Ef flugferð er aflýst vegna gjaldþrots áður en ferðin er hafin er hægt að:

lýsa kröfu í þrotabúið

sækja endurgreiðslu til greiðslukortafyrirtækis, ef farseðill var greiddur með greiðslukorti

Ef farþegi er erlendis þegar flugfélag fer í þrot er hægt að:

sækja endurgreiðslu til greiðslukortafyrirtækis, ef farseðill var greiddur með greiðslukorti


Mismunandi reglur

Flestallir sem greiddu með kreditkorti ættu að geta fengið færsluna bakfærða, en örlítil meiri óvissa er með þá sem greiddu með debetkorti, þar sem bankarnir eru með mismunandi reglur. Þeir sem áttu bókaða flugferð með Play í gegnum ferðaskrifstofu eru ögn öruggari. 

„Þegar þú ert kominn í pakkaferðir er víðtækari vernd. Ferðaskrifstofan er skyldug til að aðstoða þig við að komast á áfangastað eða heim. Það sem er kannski verst í þessu er ef fólk er strandað einhvers staðar úti í heimi. Þá getur það fengið aðstoð hjá Samgöngustofu og stofnunin aðstoðar fólk við að komast heim aftur. Eða annast milligöngu um það,“ segir Breki. 

Hægt að leita til Neytendasamtakanna

Mikilvægt sé að hafa samband við bankann eða ferðaskrifstofuna sem fyrst til að greiða úr málunum. Breki bendir á að Neytendasamtökin séu einnig innan handar lendi fólk í vandræðum.

„Við búumst við því að margir hafi samband við okkur og við erum að uppfæra færslu á vefnum okkar. Við búumst við því líka að Samgöngustofa muni á sínum vef tilkynna fólki um hvernig er best að snúa sér. Annars getur fólk líka fengið upplýsingar á ns.is/flug. Þar eru allar upplýsingar um réttindi flugfarþega,“ segir Breki. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×