Handbolti

Bikarmeistararnir sluppu með skrekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ívar Logi Styrmisson skoraði sjö mörk gegn Víkingi.
Ívar Logi Styrmisson skoraði sjö mörk gegn Víkingi. vísir/anton

Bikarmeistarar Fram unnu Víking, sem leikur í Grill 66 deildinni, með tveggja marka mun, 39-41, í tvíframlengdum leik í sextán liða úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta. Leikurinn fór fram á heimavelli Víkinga í Safamýrinni þar sem Framarar léku í mörg ár.

Víkingar sýndu mikla seiglu og tryggðu sér framlengingu með því að skora síðustu þrjú mörk venjulegs leiktíma, 32-32. 

Staðan var enn jöfn, 36-36, eftir fyrstu framlenginguna en í annarri framlengingunni sigu Íslands- og bikarmeistararnir fram úr og unnu með tveimur mörkum, 39-41.

Kjartan Þór Júlíusson og Ívar Logi Styrmisson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Fram en Ísak Óli Eggertsson átti frábæran leik fyrir Víking og skoraði þrettán mörk. Ásgeir Snær Vignisson skoraði átta.

HK vann fjögurra marka sigur á Selfossi í Kórnum, 27-23. Haukur Ingi Hauksson skoraði átta mörk fyrir HK-inga og Leó Snær Pétursson og Ágúst Guðmundsson sitt hvor sex mörkin. Hannes Höskuldsson gerði sjö mörk fyrir Selfyssinga.

Daníel Freyr Andrésson varði 21 skot þegar FH sigraði Gróttu, 29-35, á Seltjarnaresinu. Ómar Darri Sigurgeirsson skoraði níu mörk fyrir FH-inga og Garðar Ingi Sindrason sex. Bessi Teitsson var markahæstur Seltirninga með átta mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×