Skoðun

Lífsskoðunarfélagið Far­sæld tekur upp slitinn þráð siðmenntunar

Svanur Sigurbjörnsson skrifar

Lífsskoðunarfélög fjalla um siðferði, grunn þekkingar, gildi og helstu tímamót í lífi einstaklinga og fjölskyldna, meðal annars gegnum athafnir. Hugmyndagrunni þeirra hefur einkum verið skipt í tvo meginflokka: trúuðum og veraldlegum (án trúar á æðri mátt). Sé horft til þróunar síðari flokksins hérlendis hafa ekki verið miklar hreyfingar í fjölda veraldlegra (trúlausra) lífsskoðunarfélaga á landinu frá stofnun Siðmenntar árið 1990. Nú hefur átt sér stað sá viðburður að nýtt veraldlegt lífsskoðunarfélag hefur verið stofnað - húmanískt félag.

Húmaníska lífsskoðunarfélagið Farsæld stofnað

Farsæld var stofnað þann 23. mars síðastliðinn í Safnahúsi, Reykjavík. Stofnendur þess eru meðal annarra nokkrir af helstu burðarásum Siðmenntar frá árunum 1995 til 2018. Líkt og hjá Siðmennt er Amsterdam-yfirlýsing alþjóðlegra húmanista mikilvægur hluti af hugmyndagrunni félagsins en hún kom upphaflega fram árið 1952. Skyldleiki er því með hugmyndalegum grunni félaganna, en stofnendur Farsældar vilja taka upp á ný þráð þeirrar fjölbreyttu umræðu- og menntastarfsemi sem hluti þeirra byggði upp hjá Siðmennt og bæta við hana. Þess má sjá strax merki á vefsíðu Farsældar sem skartar fróðleik um húmanískar lífsskoðanir. Fleira mun vafalaust verða ólíkt milli félaganna en það endurspeglar að nokkru ólíka forgangsröðun í gildismati og áherslur í starfi.

Farsæld byggir starf sitt einnig á grunni rökræðulýðræðis og dygðasiðfræði, með gagnrýninni hugsun og mannkostamenntun sem viðmið í störfum félagsmanna fyrir félagið. Nafnið Farsæld vísar til siðferðilegrar vegferðar manneskja og samfélaga til aukins þroska og blómstrunar í lífinu.

Farsæld er nú að fara af stað með vetrardagskrá sína og þar sjást áherslurnar á umræðu- og menntastarf þess. Félagið býður upp á sveigjanlega athafnaþjónustu sem meðal annars tekur tillit til þarfa fyrir styttri giftingarathafnir. Nýverið sótti Farsæld um opinbera skráningu sem veraldlegt lífsskoðunarfélag þar sem það uppfyllir öll lagaleg skilyrði þar um.

Alþjóðlegt samhengi húmanískra félaga

Á alþjóðavísu eru veraldleg lífsskoðunarfélög flest kennd við húmanisma (120 félög starfandi í 60 löndum) en sum við raunhyggju (realism), fríþenkjara eða skynsemistrú (free thought), vísindalega sýn (scientific inquiry) eða veraldlega óhlutdræga skipan samfélaga (secularism eða „aðskilnað ríkis og kirkju“). Hjá Farsæld, líkt og hjá öðrum félögum húmanista víða um heim, er rík áhersla lögð á að styðja við heiðarlega, vísindalega öflun þekkingar og stuðning við heilsusamlegt líferni og forvarnandi aðgerðir líkt og bólusetningar og eflingu geðheilbrigðis. Jafnrétti, sjálfsákvörðunarréttur fólks um líf sitt, myndun og styrking dýrmætra tengsla, verndun lýðræðislegrar rökræðu og uppbygging gagnrýninnar hugsunar eru meðal hornsteina í stefnu félagsins.

Farsæld og framtíð fjölbreyttrar húmanískrar hugsunar

Samkvæmt skýrslu Þjóðskrár 1. júlí 2025 eru 60 skráð trú- og lífsskoðunarfélög, þar af 58 trúarleg af fjölbreyttu tagi þó flest séu afsprengi kristninnar. Líkt og þessi mikla flóra trúfélaga hérlendis gefur til kynna, þá er ekki ólíklegt að fjöldi veraldlegra lífsskoðunarfélaga muni aukast þegar fram í sækir, enda er mannlífið og áherslur þess hvarvetna fjölbreyttar. Það sem sameinar öll veraldleg lífsskoðunarfélög er einkum höfnun átrúnaðar á hugmyndir um æðri verur og það sem sameinar slík húmanísk lífsskoðunarfélög er sú sannfæring að heimspekilegt sammannlegt siðferði og rökstutt gildismat sé farsælasta leiðin til góðs lífs.

Farsæld ætlar að leggja sitt af mörkum til að styðja við samfélagið með þetta að leiðarljósi.

Höfundur er formaður lífsskoðunarfélagsins Farsældar.




Skoðun

Sjá meira


×