Erlent

Á­tján saknað eftir harm­leikinn í Tennessee

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Íbúar í Tennessee stóðu fyrir minningarathöfn í gær. 
Íbúar í Tennessee stóðu fyrir minningarathöfn í gær.  AP

Átján er saknað eftir að sprenging varð í hergagnaverksmiðju skammt frá Nashville í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum í gær. 

Sprengingin varð í verksmiðju Accurate Energetic Systems í McEwen þar sem sprengjur eru framleiddar fyrir Bandaríkjaher. Hjá fyrirtækinu starfa um 75 manns. 

Á blaðamannafundi í morgun sagði Chris Davis lögreglufulltrúi að fimm manns hefðu verið fluttir á sjúkrahús eftir atvikið.

Eins og sjá má var lítið sem ekkert eftir af byggingunni. AP

„Það er ekki hægt að lýsa þessu. Það er allt horfið,“ sagði hann á fundinum. 

Drónamyndir af vettvangi sýna rústir og það litla sem eftir er af verksmiðjunni. Davis segir fulla starfsemi hafa verið í verksmiðjunni þegar hún sprakk í loft upp í morgunsárið. Starfsmanna sem þá voru nýmættir til vinnu sé saknað eða þeir látnir. Íbúar í 25 kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunni hafi fundið fyrir sprengingunni. 

Í verksmiðjunni voru framleiddar og geymdar sprengjur úr C4, TNT og öðrum kraftmiklum sprengiefnum. 

Davis sagði lögreglu rannsaka hvort sprengingin hafi borið að með saknæmum hætti eða fyrir slysni. Enn væri ekki hægt að staðfesta neitt í þeim efnum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×