Íslenski boltinn

Heimir sagður taka við Fylki

Valur Páll Eiríksson skrifar
Heimir guðjónsson
Heimir guðjónsson Vísir/Anton Brink

Heimir Guðjónsson sér ekki fram á langa atvinnuleit eftir að hann lýkur störfum hjá FH í lok tímabilsins í Bestu deild karla. Hann taki við Fylki í Lengjudeild.

Fótbolti.net greinir frá og fullyrðir að Heimir verði kynntur til leiks hjá Árbæingum á morgun. Heimir er þó enn í starfi hjá FH en liðið á tvo leiki eftir í Bestu deildinni.

Hafnfirðingar höfðu þegar tilkynnt að Heimir haldi ekki áfram með liðið að tímabilinu loknu. Nýr þjálfari verður ráðinn til starfa hjá FH. Ekki hefur fengist staðfest hver taki við en Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, segir þegar hafa verið samið við nýjan þjálfara og eru háværar sögusagnir um að sá maður sé Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari AB í Danmörku.

Fylkir var í fallbaráttu í Lengjudeild karla í sumar en flestir höfðu spáð þeim beint upp í Bestu deild eftir fall sumarið 2024. Arnar Grétarsson tók við af Árna Frey Guðnasyni um mitt mót og hélt Árbæingum uppi. Hann mun ekki stýra liðinu áfram.

Davíð Smári Lamude, fyrrum þjálfari Vestra, hafði verið orðaður við Árbæinn en ef marka má Fótbolti.net er Heimir næsti þjálfari liðsins.

Heimir hefur stýrt FH frá árinu 2022 en var áður þjálfari liðsins frá 2008 til 2017. Hann stýrði HB í Færeyjum milli 2017 og 2019 og Val frá 2019 til 2022 áður en hann sneri aftur í Hafnarfjörð.

Hann stýrði FH til sex Íslandsmeistaratitla í fyrri stjóratíð sinni og gerði Val að meisturum 2020. Hann vann þá færeyska meistaratitilinn með HB 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×