Íslenski boltinn

Gullkálfurinn Gunnar: „Stemningin var raf­mögnuð“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gunnar Vatnhamar og aðrir Færeyingar hafa haft mikla ástæðu til að fagna að undanförnu.
Gunnar Vatnhamar og aðrir Færeyingar hafa haft mikla ástæðu til að fagna að undanförnu. Samsett/Vísir/Ívar/Færeyska knattspyrnusambandið

Svo virðist sem allt sem Færeyingurinn Gunnar Vatnhamar snerti þessa dagana verði að gulli. Hann er Íslandsmeistari með Víkingi og nær sögulegum árangri sem fyrirliði landsliðsins.

Færeyjar unnu Svartfellinga 4-0 í Þórshöfn fyrir helgina og fylgdu því eftir með fræknum 2-1 sigri á Tékkum á sunnudagskvöld. Ótrúlegur árangur liðsins sem er stigi frá umspilssæti, með 12 stig í riðlinum, og hafa aldrei fengið fleiri.

„Stemningin var rafmögnuð bæði á Þórsvelli og líka eftir leikinn. Okkur var hrósað á samfélagsmiðlum og af vinum og vandamönnum heima. Það er magnað hvað allir eru sammála um að styðja okkur þótt við hefðum átt tvö erfið ár,“ segir Gunnar og bætir við:

„Það er erfitt að ná góðum úrslitum gegn stærri þjóðum en við höfum fundið það undanfarin misseri að okkur fer fram. Nú höfum við sýnt umheiminum það.“

Hvatti handboltaliðið til sigurs

Gunnar kom aftur til Íslands seinni partinn í gær og fór beint af flugvellinum í Lambhagahöllina. Þar var hann í stúkunni íklæddur færeysku landsliðstreyjunni, og hvatti sínar konur til sigurs á Íslandi.

„Ég er ekki mikið inni í handbolta en það sem ég sá var magnað. Annar sigur hjá okkur.“

Handboltalandsliðin tvö, karla og kvenna, fóru í fyrsta sinn á stórmót í fyrra. Gunnar segir fótboltaliðið sækja innblástur þangað.

„Þetta hafði sterk áhrif á færeysku þjóðina. Fólk fékk meiri trú á þessu, meiri eldmóð og sjálfstraust. Það má þakka handboltalandsliðunum fyrir þann aukakraft sem gerði okkur kleift að ná lengra og öðlast trú á okkur sjálfum. Sem betur fer getum við þetta líka í fótboltanum,“ segir Gunnar.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild að neðan.

Klippa: Gunnar Vatnhamar ræðir sögulegan árangur og ótrúleg íþróttaafrek Færeyinga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×