Erlent

Hljóp út í örvæntingu „með lífið í poka“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Skriðan varð til þess að nokkur hundruð manns var gert að yfirgefa heimili sitt í Ósló. 
Skriðan varð til þess að nokkur hundruð manns var gert að yfirgefa heimili sitt í Ósló.  EPA/Stian Lysberg Solum

Íbúi í Ósló sem þurfti að rýma heimili sitt í gær vegna aurskriðu segist hafa verið mjög stressaður þegar hann sá í hvað stefndi og hafi í örvæntingu hlaupið inn og sótt helstu eigur ef allt færi á versta veg. Tvær aurskriður féllu í íbúabyggð í Ósló í gærkvöldi og í morgun og þurftu mörg hundruð að rýma heimili sín. Grjóthnullungar féllu skammt frá Carl Berners-torgi síðdegis í gær og aftur rétt fyrir klukkan níu í morgun að staðartíma.

Á fjórða hundrað þurftu að rýma heimili sín í gær og var öllum íbúum á rýmingarsvæðinu komið fyrir á hóteli í nágrenninu. Í einni blokkanna sem þurfti að rýma eru stúdentaíbúðir og hafa þeir enn ekki fengið að snúa aftur til síns heima. 

Einn þeirra var á leið heim úr vinnu í gær þegar grjóthrunið varð og segir mikla óvissu framundan. „Það voru bara nokkrir úti sem höfðu séð þetta út um gluggann og hlupu út, svo langflestir höfðu ekki tekið eftir því ennþá. Seinna um kvöldið voru þetta nokkur hundruð svo ég áttaði mig á því að það yrði fljótlega gripið til rýmingar,“ sagði Johannes Lundvoll, íbúi í Ósló sem þurfti að rýma. 

„Ég hljóp inn, ég bý rétt handan við hornið, og greip nokkrar nauðsynjar. Ég bókstaflega stakk lífi mínu í poka, og í flýti tók ég mynd af eigum mínum í íbúðinni til öryggis ef á þyrfti að halda fyrir tryggingarnar ef allt myndi hrynja. Þetta var mjög stressandi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×