Erlent

Flótta­mönnum fækkað úr 125.000 í 7.500

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump hefur þegar tekið á móti hvítum flóttamönnum frá Suður-Afríku, sem segjast sæta mismunun vegna litarháttar og eiga meðal annars erfitt með að fá vinnu.
Trump hefur þegar tekið á móti hvítum flóttamönnum frá Suður-Afríku, sem segjast sæta mismunun vegna litarháttar og eiga meðal annars erfitt með að fá vinnu. Getty/Chip Somodevilla

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að taka á móti í mesta lagi 7.500 flóttamönnum á næsta ári. Um er að ræða verulega fækkun en viðmið ríkisstjórnar Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var 125.000 flóttamenn.

Ákvörðunin var birt í gær en Associated Press hafði áður greint frá því að þetta stæði til og að fjölmennasti hópurinn sem stjórnvöld hygðust taka á móti yrðu hvítir einstaklingar frá Suður-Afríku.

Samkvæmt umfjöllun Guardian segir í minnisblaði stjórnvalda að fjöldinn sé miðaður út frá mannúðaraðstæðum og sé hæfilegur með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna.

International Refugee Assistance Project er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ákvörðunina og segja hana skýrt dæmi um að ríkisstjórn Donald Trump sé meira annt um pólitík en verndarsjónarmið.

Samtökin fordæma stjórnvöld harðlega fyrir að neita flóttamönnum um vernd, sem hafa þegar gengið í gegnum umfangsmikið ferli.

Þá segir Krish O'Mara Vignarajah, framkvæmdastjóri Global Refuge í Bandaríkjunum, að ákvörðunin snúist ekki bara um að fækka flóttamönnum, heldur sé með henni grafið undan siðferðilegri stöðu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×