Erlent

Segja vopna­hléið aftur í gildi eftir miklar á­rásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Mahmoud Shakshak (hægri) með lík átta ára dóttur sinnar og fimm ára sonar síns. Þau eru sögð hafa fallið í árásum Ísraela í Gasaborg.
Mahmoud Shakshak (hægri) með lík átta ára dóttur sinnar og fimm ára sonar síns. Þau eru sögð hafa fallið í árásum Ísraela í Gasaborg. AP/Yousef Al Zanoun

Ráðamenn í Ísrael segja vopnahlé aftur í gildi á Gasaströndinni, eftir umfangsmiklar árásir frá því í gær. Að minnsta kosti hundrað Palestínumenn eru sagðir hafa látið lífið í loftárásum Ísraela frá því í gær en þá héldu Ísraelar því fram að Hamas samtökin hafi rofið vopnahléið.

Það áttu þeir að hafa gert með því að ráðast á ísraelska hermenn í suðurhluta Gasa þar sem einn hermaður féll og með því að brjóta samkomulagið um að afhenda líkamsleifar látinna gísla.

Hamas segjast hins vegar ekkert hafa haft með árásina að gera og að þeir séu að framfylgja reglum friðarsamkomulagsins.

Sjá einnig: Skipar hernum að gera árásir á Gasa

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tjáð sig um málið og segir að ekkert megi setja friðarsamkomulagið í hættu. Hann bætti þó við að Ísraelar séu í rétti til að verja sig, sé á þá ráðist. Loftárásirnar í nótt beindust að heimilum, skólum og íbúðarblokkum vítt og breitt um Gasa.

Þá sagði Trump að ef Hamas-liðar hegðuðu sér vel yrði komið á friði. Annars yrðu þeir drepnir.

Heilbrigðisráðuneyti Gasa segir 104 hafa fallið í árásunum og þar á meðal séu 46 börn. Að minnsta kosti 253 eru sagðir særðir. Um er að ræða skæðustu árásir Ísraela frá því vopnahléssamkomulag tók gildi á Gasa þann 10. október.

Leiðtogar Hamas segjast ætla að tefja afhendingu næstu líkamsleifa vegna árásanna, samkvæmt AP fréttaveitunni. Enn eru líkamsleifar þrettán gísla á Gasaströndinni.

Al Jazeera segir að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hafi að miklu leyti skipað hernum í gær að gera árásir vegna gagnrýni gegn honum innan Ísrael. Hann hafi verið sakaður um að vera undir stjórn Bandaríkjamanna og með árásunum hafi hann viljað sýna að svo væri ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×