Upp­gjörið: Ár­mann - Tinda­stóll 77-110 | Tinda­stóll of stór biti fyrir Ár­mann

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ivan Gavrilovic var stigahæstur í liði Tindastóls að þessu sinni. 
Ivan Gavrilovic var stigahæstur í liði Tindastóls að þessu sinni.  Vísir/Pawel

Tindastóll vann sannfærandi sigur þegar liðið sótti Ármann heim í sjöttu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í Laugardalshöll í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 77-110 Tindastóli í vil.

Tindastóll var sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta og byggði þar upp 18 stiga forskot en staðan var 15-33 gestunum í vil eftir fyrsta fjórðung. Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls rúllaði liði sínu vel og var ávallt með ferska fætur inni á vellinum.

Ivan Gavrilovic og Sigtryggur Arnar Björnsson hófu til að mynda leikinn á varamannabekknum en Ivan kom inn af bekknum og skoraði 17 stig í fyrri hálfleik og Sigtryggur Arnar níu stig.

Það var í raun ljóst allt frá upphafi hvoru megin sigurinn myndi lenda en leikmenn Ármanns náðu nokkrum dauðakippum í seinni hálfleik. Munurinn fór minnst niður í 16 stig í þriðja leikluta. 

Þá tóku gestirnir frá Sauðárkróki aftur við sér og niðurstaðn varð öruggur og þægilegur 33 stiga sigur Tindastóls sem hefur 10 stig líkt og Grindavík á toppi deildarinnar. 

Atvik leiksins

Huggulegt alley-oop troðsla Dedrick Basile og Taiwo Badmus gladdi augað mest í þessum leik. Þá sýndi Daniel Love líka skemmtileg tilþrif þegar hann tróð með stæl. 

Stjörnur og skúrkar

Jöfn og góð frammistaða skilaði þessum sigri hjá Tindastóli en Ivan Gavrilovic og Sigtryggur Arnar Björnsson voru stigahæstir en Ivan setti niður 23 stig og Sigtryggur Arnaron lagðu 22 stig í púkkinn.  

Líkt og áður var Bragi Guðmundsson fremstur á meðal jafningja í liði Ármanns en hann skoraði 24 stig í þessum leik og var stigahæstur á vellinum. Arnaldur Grímsson, Daniel Love og Marek Dolezaj áttu einnig góðar rispur. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson og Guðmundur Ragnar Björnsson höfðu góð tök á þessum leik og fá sjö í einkunn fyrir vel unnin störf sín. 

Stemming og umgjörð

Það var fínasta stemming í Laugardalshöllinni i kvöld og sjálfboðaliðar Ármanns boðnir og búnir til þess að hafa umgjörðina eins og best verður á kosið fyrir alla þá sem koma að leiknum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira