Erlent

Bretar vilja fara „dönsku leiðina“ í inn­flytj­enda­málum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Shabana Mahmood er innanríkisráðherra Bretlands.
Shabana Mahmood er innanríkisráðherra Bretlands. Getty

Shabana Mahmood innanríkisráðherra Bretlands vill fara dönsku leiðina í innflytjendamálum. Fulltrúar ráðuneytisins voru sendir til Danmerkur til að kynna sér kerfið þar. Danir eru með einhverja ströngustu innflytjendalöggjöf í Evrópu.

Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins hyggist Mahmood tilkynna um breytingarnar seinna í mánuðinum en fréttaflutningurinn hefur strax vakið harkaleg viðbrögð vinstrivængs Verkamannaflokksins. Flokkurinn sem fer með völdin í Bretlandi um þessar mundir er nokkuð klofinn í málaflokknum en með örri fylgisaukningu Nigels Farage og Endurbótaflokksins sjá ráðherrar þörfina á að bregðast við.

Flóknar fjölskyldusameiningar

Í Danmörku er gríðarlega ströng innflytjendalöggjöf líkt og fjallað hefur verið um. Flóttafólk fær þar yfirleitt aðeins tímabundið dvalarleyfi jafnvel þegar þau eru á flótta undan átökum. Jafnframt ákveða dönsk yfirvöld hvað teljist öruggur áfangastaður.

Guardian bendir á að innanríkisráðuneytið hafi litið reglur Dana um fjölskyldusameiningar hýru auga. Þegar flóttamaður sem fengið hefur dvalarleyfi sækir um fjölskyldusameiningu fyrir maka sinn fer í gang flókið ferli. Báðir einstaklingar þurfa að vera eldri en 24 ára, einstaklingurinn sem sækir um leyfið má ekki hafa þegið bætur síðastliðin þrjú ár og einnig að leggja fram tryggingu fyrir kostnaði. Sömuleiðis þurfa báðir aðilar að standast dönskupróf.

Málflutningur öfgahægrisins

Þingmaður Verkamannaflokksins sem Guardian ræddi við var afdráttarlaus í gagnrýni sinni á fyrirætlanirnar.

„Sósíaldemókratar [í Danmörku] hafa tekið til harkalegra ráðstafana í innflytjendamálum. Þeir hafa tileinkað sér málflutning öfgahægrisins,“ sagði Clive Lewis þingmaður.

„Verkamannaflokkurinn þarf að saxa á fylgi Endurbótaflokksins en maður gerir það ekki með því að kasta atkvæðum frjálslyndra á glæ,“ sagði hann svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×